Annar aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19 var kynntur í gær, 21. apríl 2020.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvörp til breytingar á ýmsum lögum þar sem brugðist er við rekstrarörðugleikum minni fyrirtækja, félagsleg úrræði efld, nýsköpun fær aukið fjármagn og brugðist er við vanda námsmanna. Um fjölda aðgerða er að ræða og ljóst að þær geta enn tekið breytingum í meðferð frumvarpanna fyrir Alþingi.

Helstu úrræði sem vert er að nefna og hugsanlega geta gagnast fyrirtækjum í landinu eru sem hér segir.

Lokunarstyrkur – styrkur til rekstraraðila sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna.

Rekstraraðilar sem gert var að hætta starfsemi vegna ráðstafana í þágu sóttvarna skulu eiga rétt á styrk sem nemur allt að 800.000 kr. á hvern launamann, þó að hámarki 2,4 millj. Kr. fyrir hvern aðila.

Skilyrði fyrir styrknum eru sem hér segir:

 1. Aðila var gert skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu.
 2. Tekjur hans í apríl 2020 a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019.
 3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 a.m.k. 4,2 millj. kr.
 4. Engin vanskil opinberra gjalda í lok árs 2019.
 5. Bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann hefur ekki verið tekinn til slita.

Sækja þarf um styrkinn til Skattsins fyrir 1. september næstkomandi og skal hann afgreiddur innan tveggja mánaða.

Stuðningslán

Lánastofnun sem gert hefur samning við Seðlabanka Íslands um lánveitingar vegna COVID-19 getur veitt tilteknum rekstraraðilum lán er nemur allt að 10% af tekjum rekstraraðilans á rekstrarárinu 2019, þó að hámarki 6 millj. kr. Lán þessi skulu vera að fullu tryggð af ríkissjóði, vera til 30 mánaða og bera sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni (1,75% eins og stendur).

Skuli lán njóta framangreindrar tryggingar ríkissjóðs skal lántaki uppfylla átta skilyrði. Eru þau m.a., til viðbótar við skilyrði 4 og 5 fyrir veitingu lokunarstyrksins:

 1. Tekjur á 60 daga samfelldu tímabili árið 2020 hafi að minnsta kosti verið 40% lægri en á sama tímabili 2019.
 2. Tekjur árið 2019 hafi að lágmarki verið 9 m.kr. og að hámarki 500 m.kr.
 3. Launakostnaður hafi a.m.k. verið 10% af rekstrarkostnaði árið 2019.
 4. Ekki hafi verið greiddur út arður, óumsamdir kaupaukar, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða lán eða aðrar greiðslur veittar eigendum eða nákomnum aðilum sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstrarhæfi frá 1. mars 2020 og út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.
 5. Rekstraraðili sé ekki í vanskilum við lánastofnanir sem hafa staðið lengur en 90 daga.
 6. Ætla megi að rekstraraðili verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru að mestu liðin hjá. 

Frestun skattgreiðslna lögaðila

Sjái fyrirtæki fyrir að tap verði á rekstrarárinu 2020 geta þau sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts vegna ársins 2019. Skal frestun þessi vera þar til álagningu ársins 2021.

Að uppfylltum frekari skilyrðum getur félagið þá lækkað skattkröfuna vegna rekstrarársins 2019 sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins 2020.

Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap), sem nú er lagt til að verði gert.

Á vefsíðu stjórnarráðsins er að finna greinargóða umfjöllun um hvert og eitt úrræði annars aðgerðarpakka stjórnvalda. Við hjá KPMG Lögmönnum höldum áfram að leggja okkar af mörkum með því að vera til taks og veita upplýsingar og svör.