Þann 1. nóvember 2021 gengu í gildi breyttar reglur um skattaundanþágur lögaðila sem starfa til almannaheilla og um skattafrádrátt vegna gjafa til þeirra. Lögfest var skilgreining á því hvers konar starfsemi telst vera til almannaheilla.

Sú starfsemi sem telst vera til almannaheilla er m.a.: mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarstarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindaleg rannsóknarstarfsemi, starfsemi menntasjóða, neytenda- og forvarnarstarfsemi og starfsemi trú- og lífsskoðunarfélag.

Sjá nánar um starfsemi sem telst til almannaheilla

Skattaundanþágur

Skattaundanþágur vegna starfsemi til almannaheilla ná ekki til atvinnufyrirtækja og ná því ekki til hlutafélaga, einkahlutafélaga, samlagshlutafélaga, gagnkvæmra tryggingafélaga, samvinnufélaga, sameignarfélaga eða samlagsfélaga.

Lögaðila sem starfar til almannaheilla er þó heimilt að stunda atvinnustarfsemi sem takmarkast við: 

  • Fjáröflun innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum lögaðilans og leiða má beint af tilgangi hans.
  • Starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildartekna lögaðilans. 
  • Skilyrði skattaundanþága er að lögaðilinn sé skráður á almannaheillaskrá sem Skatturinn starfrækir í skattalegum tilgangi og birtir á vef sínum.

Skattaundanþágur lögaðila sem starfar til almannaheilla eru:

  • Undanþága frá tekjuskatti, þ.m.t. fjármagnstekjuskatti.
  • Undanþága frá því að sæta afdrætti fjármagnstekjuskatts í staðgreiðslu.
  • Undanþága frá stimpilgjaldi.
  • Undanþága frá erfðafjárskatti.

Skráning á almannaheillaskrá

Auk áðurnefndra skilyrða um form lögaðila og starfsemi hans verða frá og með 1. janúar 2022 einnig skilyrði fyrir skráningu á almannaheillaskrá að:

  • Lögaðilinn sé ekki í vanskilum með skatta eða skattsektir.
  • Álagðir skattar lögaðilans byggjast ekki á áætlun vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum.
  • Lögaðilinn hafi staðið Skattinum skil á ársreikningi fyrra árs eða sýni fram á að hann hafi skilað ársreikningi til þar til bærs stjórnvalds ef slík skilaskylda er fyrir hendi.

Rafrænt umsóknarferli um frumskráningu á almannaheillaskrá er að finna á þjónustuvef Skattsins (skattur.is). Innskráning er með rafrænu skilríki fyrirsvarsmanns eða veflykli lögaðila. Umsóknarfrestur vegna ársins 2021 var til loka ársins. Umsóknarfrestur frumskráningar vegna síðari ára er til 1. nóvember viðkomandi árs.

Skráningu þarf að endurnýja árlega. Umsóknarfestur um endurnýjun er til 15. febrúar hvert ár, í fyrsta sinn 15. febrúar 2023.

Skatturinn skal fella lögaðila af skrá berist honum ekki umsókn um endurnýjun innan frests og einnig ef skilyrði skráningar eru ekki lengur uppfyllt.

Gjafafrádráttur

Gjafir til lögaðila sem skráðir eru á almannaheillaskrá veita gefanda rétt til skattfrádráttar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Nægjanlegt er að landssamtök séu skráð ef þeir lögaðilar sem aðild eiga að samtökunum starfa til almannaheilla og nær skráningin þá einnig til þeirra. Lögaðilum innan landssamtaka er þó heimilt að skrá sig sérstaklega. Ekki er um gjöf að ræða ef endurgjald kemur fyrir, þ.m.t. félagsaðild.

Um tvenns konar frádrátt er að ræða.

  • Annars vegar er heimild atvinnufyrirtækja til frádráttar sem nemur fjárhæð gjafa, þó að hámarki 1,5% rekstrartekna gefanda á viðkomandi ári.
  • Hins vegar er frádráttarheimild fólks utan rekstrar sem nemur fjárhæð gjafa, þó að hámarki 350.000 kr. á ári (700.000 samtals hjá samsköttuðu fólki). Gjafir samtals undir 10.000 kr. á ári veita ekki frádráttarrétt, en ekkert lágmark er á fjárhæð hverrar gjafar.

Auk skilyrðis um að móttakandi gjafar sé skráður á almannaheillaskrá eru gjafafrádrættir háðir eftirtöldum skilyrðum. 

  • Hvort heldur um ræðir gjafir atvinnufyrirtækja eða fólks utan rekstrar þarf móttakandi gjafar ótilkvaddur að veita Skattinum upplýsingar um gjöf ókeypis og á því formi sem Skatturinn ákveður. Skatturinn hefur mælst fyrir um skil upplýsinga á tölvutæku formi fyrir 20. janúar næsta árs hverju sinni.

Gjafafrádráttur atvinnufyrirtækja er jafnframt háður því að:

  • Móttakandi og gefandi lúti ekki beinum eða óbeinum stjórnunarlegum yfirráðum hvors annars.
  •  Einstaklingar, sem beint eða óbeint eiga meirihluta eða fara með stjórnunarleg yfirráð í móttakanda eða gefanda, hafi ekki verulegan hag af veittri gjöf.

Ennfremur er gjafafrádráttur atvinnufyrirtækja háður því að:

  • Móttakandi láti gefanda í té skriflega staðfestingu á móttöku gjafar, þar sem fram kemur dagsetning, nafn gefanda, form gjafar og fjárhæð. Staðfestingin má vera á rafrænu formi. Bæði móttakandi og gefandi skulu varðveita eintak staðfestingarinnar.
  • Móttakandi haldi rekstri og efnahag vegna óhagnaðardrifinnar almannaheillstarfsemi að fullu aðgreindum bókhaldslega frá annarri starfsemi sinni.

1. nóvember 2021 gengu einnig í gildi lög nr. 110/2021, um almannaheillafélög. Lögin gilda um félög sem starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla og skráð eru á almannaheillafélagaskrá sem fyrirtækjaskrá heldur. Skráning er valkvæð og er óháð þeirri skattalegu almannaheillaskrá sem hér framar er greint frá. Lögin innihalda m.a. ákvæði um stofnun og slit félaga, stjórnskipun þeirra og félagsaðild. Skráning á almannaheillaskrá er skilyrði þess að félag megi hafa í nafni sínu orðin „félag til almannaheilla“ eða skattstöfunina fta. Hið opinbera getur gert skráningu á almannaheillafélagaskrá að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum.

Lög um almannaheillafélög