KPMG á alþjóðavísu gaf nýlega út skýrslu undir heitinu „The Time has Come“ eða „Stundin er runnin upp“. Hún byggir á könnun á sjálfbærniskýrslugjöf 5.200 fyrirtækja, þeim 100 stærstu í 52 löndum. Þetta er í ellefta sinn frá árinu 1993 sem KPMG gerir könnun af þessu tagi og í fyrsta skipti sem Ísland er þátttakandi. Heitið vísar í niðurstöður skýrslunnar sem sýna að sjálfbærniskýrslur eru að verða órjúfanlegur þáttur í upplýsingagjöf allra stærri fyrirtækja.

Tækifæri á Íslandi

Könnun KPMG leiddi í ljós að 80% af þeim fyrirtækjum sem hún tekur til gefa út skýrslu um sjálfbærni (þ.e. um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti sem og aðra ófjárhagsleg atriði) og er það hlutfall 96% ef horft er til 250 stærstu fyrirtækja heims. Hlutfallið er hæst í Norður- og Suður-Ameríku eða 90%, 84% í Asíu, 77% í Evrópu og 59% í Afríku og Mið-Austurlöndum. Af stærstu fyrirtækjum Íslands gefa 52% út slíkar skýrslur sem er nokkuð lægra en á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið er 98% í Svíþjóð, 82% í Finnlandi og 77% í Noregi. Áhugavert er að við fyrstu útgáfu skýrslunnar, árið 1993, voru aðeins 12% fyrirtækja sem gáfu út sjálfbærniskýrslur.