Hér má finna helstu úrskurði sem fallið hafa í tengslum við úrræði stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru. Síðast uppfært 20. maí 2021.

Styrkúrræði

ÚY nr. 47/2021 – Lokunarstyrkur – Starfsemi húsdýragarðs

Stutt: Ekki fallist á kröfu húsdýragarðs um veitingu lokunarstyrks þar sem starfsemin þótti ekki sambærileg annarri starfsemi sem bar að loka á umræddu tímabili. Yfirskattanefnd taldi ekki séð að ómögulegt hafi verið að halda úti starfseminni þrátt fyrir takmarkanir.

Í úrskurðinum var kærð ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna umsókn kæranda, sem starfrækti húsdýragarð, um lokunarstyrk á grundvelli laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Byggði ríkisskattstjóri á því að starfsemi kæranda félli ekki undir 1. tölulið 4. gr. laganna þar sem fyrir er að finna eitt skilyrði sem þarf m.a. að uppfylla til að eiga rétt á lokunarstyrk, en tók umrætt skilyrði til þess að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu. Taldi ríkisskattstjóri að starfsemin hafi sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum en hafi að þeim sökum ekki þurft að hætta starfseminni.

Taldi kærandi starfsemi húsdýragarðsins vera sambærilega söfnum og bókasöfnum sem hafi borið að loka á grundvelli auglýsingar um takmörkun vegna farsóttar, utan þess að hún færi að hluta til fram utandyra. Væri um að ræða safn með lifandi dýrum og hefði kæranda því borið að loka garðinum til að komast hjá smitum.

Yfirskattanefnd leitaði umsagnar heilbrigðisráðuneytisins í málinu þar sem ráðuneytið staðfesti að þar sem starfsemi kæranda færi bæði fram innan sem utan dyra væri hún frábrugðin starfsemi t.a.m. bókasafna sem kærandi hafði líkt rekstri sínum við. Tiltók ráðuneytið að hefði því borist erindi frá kæranda þegar auglýsingin var í gildi hefði það ekki talið að loka bæri því á sama grundvelli og bókasöfnum.

Í niðurstöðu yfirskattanefndar segir að vissum samkomustöðum og starfsemi hafi borið að loka vegna sérstakrar smithættu á umræddu tímabili. Væri um að ræða starfsemi og þjónustu þar sem krafist væri, eða hætta væri á, snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Í athugasemdum við 4. gr. laganna í frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2020 var sérstaklega tekið fram á ákvæði auglýsingarinnar væri almennt orðað og ekki væri þar um tæmandi talningu að ræða á þeim sem falli undir skýlausa kröfu um lokun eða algjöra skerðingu á starfsemi. Þurfi að meta hvort eðli starfseminnar feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Var slíkt ekki talið eiga við í starfsemi húsdýragarðsins m.a. sökum þess að starfsemin færi bæði fram innan sem utandyra. Gat yfirskattanefnd ekki séð að ómögulegt hafi verið að halda úti starfseminni þrátt fyrir takmarkanir. Ekki bárust frekari skýringar á framangreindu frá kæranda.

ÚY nr. 38/2021 – Lokunarstyrkur – Sala og útleiga leiktækja og afþreyingar

Stutt: Ekki fallist á kröfu kæranda, sem seldi og leigði út leiktæki og afþreyingar, um veitingu lokunarstyrk þar sem starfsemin þótti ekki sambærileg annarri starfsemi sem bar að loka á umræddu tímabili. Yfirskattanefnd taldi ekki að starfsemin félli undir rekstur spilasals.

Í þessum úrskurði var kærð ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Kærandi í máli þessu var félag sem hafði með höndum sölu og útleigu leiktækja og annars búnaðar til afþreyingar.

Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að starfsemi kæranda, sem einkum væri fólgin í sölu og útleigu búnaðar til afþreyingar fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Tók ríkisskattstjóri m.a. fram að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að félagið ræki spilasal þar sem innheimtur væri aðgangseyrir fyrir afnot af tækjum á staðnum eða að meginstarfsemi kæranda væri fólgin í rekstri spilasalar. Yrði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að salur sem kærandi héldi úti við M væri fyrst og fremst sýningarsalur þar sem hægt væri að sjá og prufa þau tæki sem kærandi byði til leigu.

Heilbrigðisráðuneytið tók undir með ríkisskattstjóra í umsókn sinni að ekki verði annað ráðið en aðalstarfsemi kæranda sé sala og útleiga á búnaði til afþreyingar. Þrátt fyrir að spilasalur félagsins þjóni hlutverki í rekstri kæranda verði ekki séð að félagið hafi ekki átt þess kost að laga rekstur sinn tímabundið að breyttu umhverfi.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar var þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi, enda uppfylli kærandi skilyrði fyrir veitingu lokunarstyrks. Í kærunni er tekið fram að kærandi haldi úti um 100 m2 spila- og leiktækjasal við M. Salurinn væri öllum opinn og gestir greiði ekkert gjald fyrir afnot af leiktækjunum. Salurinn gegni veigamiklu hlutverki í rekstri kæranda þar sem megnið af tekjum félagsins megi rekja til heimsókna viðskiptavina þangað. Nauðsynlegt hafi reynst að loka húsnæðinu þar sem um samkomustað sé að ræða og sérstaka smithættu. Salurinn gegni lykilhlutverki í starfsemi kæranda og sé algjör forsenda fyrir tekjuöflun félagsins. Lokun salarins hafi því leitt til algers tekjufalls. Þá væri hvergi í lögum nr. 38/2020 tekið fram að rekstur spilasalar þurfi að vera „meginhluti“ starfsemi viðkomandi aðila. Sé þess krafist að kærandi njóti jafnræðis á við aðra rekstraraðila spilasala sem hafi fengið greiddan lokunarstyrk.

Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að aðstaða félagsins að M, þar sem viðskiptavinir áttu þess kost að kynna sér og prófa tæki og búnað sem kærandi hafði á boðstólnum, gæti talist „spilasalur“ í skilningi auglýsingar nr. 243/2020, um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar. Vísaði Yfirskattanefnd til þess að á heimasíðu kæranda sé að finna myndskeið sem sýni salinn og hvetji áhorfendur til að koma í heimsókn, prufa spil og tæki og fá upplýsingar um leigukjör. Samkvæmt þessum skýringum kæranda er ljóst að jafna má aðstöðu þessari við almenna sýningaraðstöðu fyrirtækja þar sem viðskiptavinum býðst að kynna sér vöru eða þjónustu en ekki spilasals. Var ekki talið að kæranda hefði verið skylt að láta af starfsemi félagsins um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og var kröfu kæranda um lokunarstyrk því hafnað.

ÚY nr. 31/2021 – Lokunarstyrkur – Veitinga- og skemmtistaður

Stutt: Fallist var á kröfu veitinga- og skemmtistaðareiganda um veitingu lokunarstyrks þar sem talið var að veitingastaður gæti jafnframt talist skemmtistaður og að húsnæði félagsins hafi verið sérútbúið til skemmtanahalds að ýmsu leyti. Var ekki talið girða fyrir rétt kæranda til lokunarstyrks þótt veitingar kynnu að vera fyrirferðarmeiri í starfsemi félagsins en skemmtanahald.

Í máli þessu var deilt um hvort kærandi, sem var einkahlutafélag með leyfi til reksturs veitinga- og skemmtistaðar, ætti rétt á lokunarstyrk vegna lokunar vorið 2020. Hafnaði ríkisskattstjóri umsókn kæranda á þeim forsendum að fyrst og fremst væri um að ræða starfsemi veitingastaðar og útleigu veislusala. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að starfsemi kæranda félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Var tekið fram að öðrum veitingastöðum en skemmtistöðum og krám hefði ekki verið gert að hætta starfsemi á gildistíma auglýsingarinnar, þótt þeim hefði eftir atvikum verið gert að sæta skerðingu á opnunartíma.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar var því haldið fram að það mat hjá ríkisskattstjóra, að kærandi starfrækti fyrst og fremst veitingastað ásamt salaútleigu, hafi verið rangt. Starfsemi kæranda hafi falist fyrst og fremst í skemmtanahaldi fyrir fyrirtæki, félög og einstaklinga. Húsnæði kæranda sé sérhannað fyrir skemmtanir, viðburði og mannfagnaði. Eftir birtingu auglýsingar nr. 243/2020 hafi öllum árshátíðum og öðrum viðburðum verið aflýst og hafi tekjutap kæranda vegna þessa verið á bilinu 120-130 milljónir króna. Kærandi hafi aldrei leigt út sal án þjónustu, eins og t.d. íþróttafélög og listasöfn gera, þar sem sá aðili sem standi fyrir viðkomandi viðburði fái tækifærisleyfi, enda uppfylli húsakynni slíkra aðila yfirleitt ekki kröfur um veitinga- og skemmtanaleyfi. Kærandi taldi að framangreint bæri með sér að félagið félli ekki í flokk veitingahúsa sem hafði verið unnt að halda opnu á gildistíma auglýsingarinnar og þjónusta allt að 20 gesti í einu. Af framangreindri lýsingu á starfsemi kæranda sé ljóst að kærandi reki ekki veitingahús sem geti viðhaldið starfsemi í einhverri mynd og því hafi kærandi orðið að loka.

Í úrskurði yfirskattanefndar var m.a. vísað til þess að samkvæmt lögum nr. 85/2007 gæti veitingastaður, þar sem framreiddur væri matur til neyslu á staðnum, jafnframt talist skemmtistaður í skilningi laganna ef einnig væri boðið upp á reglubundna skemmtistarfsemi, svo sem tónlist og dans. Var starfsemi kæranda í eðli sínu talin vera af þessum toga, þ.e. blönduð starfsemi veitinga- og skemmtistaðar, og tekið fram að húsnæði félagsins væri sérútbúið til skemmtanahalds að ýmsu leyti. Var ekki talið girða fyrir rétt kæranda til lokunarstyrks þótt veitingar kynnu að vera fyrirferðarmeiri í starfsemi félagsins en skemmtanahald. Var krafa kæranda tekin til greina.

ÚY nr. 29/2021 – Lokunarstyrkur - Tannsmíði

Stutt: Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að starfsemi tannsmiða yrði lögð að jöfnu við þjónustu tannlækna með tilliti til smithættu, enda krefðist starfsemi hinna fyrrnefndu engra slíkra samskipta við sjúklinga sem fælu í sér viðvarandi hættu á snertingu eða mikilli nálægð á sama hátt og við ætti um vinnu í munnholi sjúklings.

Í máli þessu vegna lokunarstyrks var deilt um það hvort kæranda, sem var einkahlutafélag um rekstur tannsmíðastofu, hefði verið skylt að láta af þeirri starfsemi vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Ríkisskattstjóri hafnaði umsókn kæranda um lokunarstyrk og byggði ákvörðun sína á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í rekstri tannsmíðastofu, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram að ekki yrði annað ráðið en að hjá tannsmiðum væru ekki til staðar bein tengsl við viðskiptavini. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra fór kærandi fram á endurupptöku málsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var þeirri beiðni hafnað af hálfu ríkisskattstjóra með vísan til þess að rekstraraðili þyrfti að uppfylla öll skilyrði sem sett væru til að eiga rétt á lokunarstyrk. Þar af leiðandi kæmi ekki til álita rekstraraðili sem ekki uppfyllti öll skilyrðin. Þá kom fram að ekki hefði verið sýnt fram á það með innsendum gögnum að um bein samskipti væri að ræða milli tannsmiða og viðskiptavina þeirra nema í undantekningartilvikum. Yrði því ekki séð að tannsmiðum hefði verið skylt að loka starfsstöð sinni heldur hefði þeim verið unnt að halda áfram vinnu við verkefni sem verið hefðu til staðar þegar til lokunar kom, þótt ný verkefni hefðu ekki bæst við frá tannlæknum á greindu tímabili. Slík takmörkun á hluta starfseminnar skapaði ekki rétt til styrkveitingar samkvæmt lögum nr. 38/2020.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar var þess krafist að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra yrði felld úr gildi og að staðfest yrði að kærandi uppfylli öll skilyrði þess að eiga rétt á lokunarstyrk. Vegna forsendna ríkisskattstjóra að öðru leyti var bent á að starfsstöð kæranda sé á tannlæknastofu og sé starf kæranda samofið störfum tannlækna að öllu leyti. Tannsmiður hitti viðskiptavini, taki mót, geri litaprófanir og máti tennur í munnholi viðskiptavina. Komi viðskiptavinur ekki til tannlæknis sé tannsmiður í mesta lagi með verkefni fyrir tvo eða þrjá daga. Sú afstaða ríkisskattstjóra að lokunin hafi aðeins takmarkað störf tannsmiðs að hluta sé því röng og kærandi hafi engar tekjur haft á því tímabili sem lokunin stóð þar sem ekki hafi verið unnt að sinna starfinu, enda óheimilt vegna snertingar. Til samanburðar hafi tannlæknar getað farið yfir röntgenmyndir og gert áætlanir. Kærandi taldi því ljóst að félagið uppfyllti skilyrði laga nr. 38/2020 fyrir lokunarstyrk.

Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að starfsemi tannsmiða yrði lögð að jöfnu við þjónustu tannlækna með tilliti til smithættu, enda krefðist starfsemi hinna fyrrnefndu engra slíkra samskipta við sjúklinga sem fælu í sér viðvarandi hættu á snertingu eða mikilli nálægð á sama hátt og við ætti um vinnu í munnholi sjúklings. Var því kröfu kæranda um lokunarstyrk hafnað.

ÚY nr. 28/2021 - Lokunarstyrkur – Fjárhæðarviðmið rekstrarkostnaðar

Stutt: Ekki var fallist á með kæranda að við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks skyldi tekið mið af heildarfjárhæð launa og launatengdra gjalda sem komu til greiðslu af hendi kæranda 31. mars 2020, enda var einungis hluti þess kostnaðar talinn tilheyra lokunartímabili.

Í máli þessu var tekist á um hvort fjárhæð lokunarstyrkja á grundvelli laga nr. 38/2020 tæki einvörðungu mið af þeim rekstrarkostnaði sem félli til hjá rekstraraðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020, þ.e. á því tímabili sem rekstraraðila var skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi, eða hvort miða ætti einnig við rekstrarkostnað sem félli til utan þess tímabils.

Forsendur ríkisskattstjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun voru þær að samkvæmt 5. gr. nefndra laga nr. 38/2020 tæki fjárhæð lokunarstyrks einungis mið af rekstrarkostnaði skattaðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020, en launakostnaður kæranda á því tímabili næmi fyrrgreindri fjárhæð 239.643 kr. Af hálfu kæranda var því hins vegar haldið fram að í þessu efni skyldi miða við þann dag sem laun og launatengd gjöld féllu til, þ.e. 31. mars 2020 vegna þess mánaðar í tilviki kæranda.

Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, kemur fram að í 1. mgr. greinarinnar komi fram sú meginregla að fjárhæð lokunarstyrks skuli vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þ.e. 24. mars til 3. maí 2020. Af þessu leiðir að þegar rekstrarkostnaður fellur til jafnt og þétt á tímabili, svo sem við á um launakostnað og ýmsan annan kostnað, getur þurft að grípa til hlutföllunar við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks, svo sem gert er ráð fyrir í lögskýringargögnum,

Var því ekki fallist á með kæranda að við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks skyldi tekið mið af heildarfjárhæð launa og launatengdra gjalda sem komu til greiðslu af hendi kæranda 31. mars 2020, enda var einungis hluti þess kostnaðar talinn tilheyra lokunartímabili.

ÚY nr. 20/2021 – Lokunarstyrkur - Viðburðarfyrirtæki

Stutt: Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að félagi hefði verið skylt að láta af starfsemi sinni um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Var ekki talið að starfsemi kæranda yrði lögð að jöfnu við íþróttastarf og starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa sem fæli í sér sérstaka smithættu. Var því kröfu kæranda um lokunarstyrk hafnað.

Í þessum úrskurði var deilt um það hvort starfsemi kæranda, sem fólgin væri í skipulagningu mannamóta, fyrst og fremst fyrir fyrirtæki á innanlandsmarkaði, félli undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 og hefði því verið skylt að láta af starfsemi sinni. samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Kærandi bar fyrir sig að hann sé viðburðafyrirtæki sem sérhæfi sig í að halda viðburði og mannamót. Í ljósi þess að öll slík starfsemi og þjónusta „krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar“, sbr. 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, hafi kærandi látið af allri starfsemi og þjónustu á því tímabili sem um ræði. Hafi öllum slíkum viðburðum og mannamótum verið aflýst á tímabilinu. Augljóslega sé ekki um tæmandi talningu á starfsemi og þjónustu að ræða í síðari hluta 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar, sbr. orðin „svo sem“. Falli starfsemi og þjónusta kæranda augljóslega undir almennt orðalag 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar.

Að mati heilbrigðisráðuneytisins var ekki talið að starfsemi kæranda hafi verið þannig í eðli í sínu að hún krefðist snertingar eða fæli í sér hættu á snertingu milli fólks þannig að hún félli undir þá starfsemi sem við sé átt í 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Starfsemi fjölmargra aðila hafi skerst vegna ákvæða auglýsingarinnar án þess að ráðuneytið hafi litið svo á að sú starfsemi félli undir 1. eða 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Í slíkum tilvikum hafi e.t.v. þurft að fækka fólki og/eða auka bil á milli fólks með þeim afleiðingum að færri gátu stundað starfsemi í einu. Þar sem umrædd ákvæði auglýsingarinnar hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau verið ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg.

Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að félaginu hefði verið skylt að láta af starfsemi sinni um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Var talið að starfsemi félagsins yrði frekast jafnað til þeirrar starfsemi sem þurft hefði að sæta fjölda- og nálægðartakmörkunum á greindum tíma, þótt ekki yrði efast um að með slíkum takmörkunum hefði grundvelli í reynd verið kippt undan ýmsum viðburðum á vegum félagsins. Var ekki talið að starfsemi kæranda yrði lögð að jöfnu við íþróttastarf og starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa sem fæli í sér sérstaka smithættu, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

ÚY nr. 5/2021 – Lokunarstyrkur – Jeppaferðir og leiðsögn

Stutt: Yfirskattanefnd féllst á með kæranda, sem sá um jeppaferðir og leiðsögn, að skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í hans tilviki, enda var talið að starfsemin krefðist slíkrar nálægðar vegna takmarkaðs rýmis í bifreiðum kæranda að starfsemin yrði lögð að jöfnu við aðra starfsemi sem fæli í sér sérstaka smithættu.

Í úrskurði þessum var deilt um hvort skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í tilviki kæranda sem hafði með höndum jeppaferðir með leiðsögn fyrir minni hópa.

Ríkisskattstjóri taldi að kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram í úrskurði skattstjóra að starfsemi kæranda félli undir 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. um væri að ræða starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Kærandi kærði úrskurðinn til yfirskattanefndar. Í kærunni er rakið að í jeppaferðum á vegum kæranda sé engin leið að halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga, sbr. 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Sé því um að ræða starfsemi eða þjónustu sem krefjist mikillar nálægðar í skilningi þessa ákvæðis auglýsingarinnar og kæranda því verið óheimilt að halda starfseminni áfram á gildistíma auglýsingarinnar. Talning á starfsemi í ákvæðinu sé aðeins í dæmaskyni og því geti ekki ráðið úrslitum að jeppaferðir séu ekki taldar upp sérstaklega. Ekki sé um minni smithættu að ræða þegar allt að fjórir einstaklingar sitji saman í jeppa heldur en þegar setið sé á rakarastofu, í skíðalyftu eða æfingar stundaðar í líkamsræktarstöð.

Yfirskattanefnd féllst á með kæranda að skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í hans tilviki, enda var talið að starfsemin krefðist slíkrar nálægðar vegna takmarkaðs rýmis í bifreiðum kæranda að starfsemin yrði lögð að jöfnu við aðra starfsemi sem fæli í sér sérstaka smithættu, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

ÚY nr. 4/2021 – Lokunarstyrkur - Ljósmyndun

Stutt: Fallist var á með kæranda, sem var sjálfstætt starfandi ljósmyndari og hafði með höndum ljósmyndun nýbura, að skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í tilviki kæranda, enda var talið að starfsemin (nýburaljósmyndun) yrði lögð að jöfnu við aðra starfsemi sem fæli í sér sérstaka smithættu.

Í þessum úrskurði var fallist á með kæranda, sem var sjálfstætt starfandi ljósmyndari og hafði með höndum ljósmyndun nýbura, að skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks væru uppfyllt í tilviki kæranda, enda var talið að starfsemin (nýburaljósmyndun) yrði lögð að jöfnu við aðra starfsemi sem fæli í sér sérstaka smithættu, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Málavextir voru þeir að ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í ljósmyndaþjónustu, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kærandi hélt því fram að ekki hann hafi neyðst til þess að loka fyrirtæki sínu á meðan faraldurinn gekk yfir með þeim rökum að starfsemi kæranda hafi að langmestu leyti verið helguð nýburamyndatökum. Slíkar myndatökur krefjist mikillar nálægðar við börnin þar sem kærandi haldi á börnunum, vefji þeim inn í teppi o.s.frv. til þess að myndataka geti farið fram. Þá séu notaðar sértækar linsur við myndatökurnar til að ná fram smáatriðum og þurfi að mynda mjög nálægt viðfangsefninu með slíkum linsum. Ekki sé undir neinum kringumstæðum hægt að virða svonefnda tveggja metra reglu við myndatökur af nýburum.

Yfirskattanefnd taldi, með vísan til umsagnar heilbrigðisráðuneytisins, að kæranda hafi verið óheimilt að veita framangreinda þjónustu við nýburaljósmyndun á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, sbr. 2. mgr. 5. gr. hennar, þar sem slík þjónusta teljist sambærileg þjónustu sem sérstaklega er tilgreind í ákvæðinu.

ÚY nr. 3/2021 – Lokunarstyrkur – Veitinga- og matsala innan húsnæðis safns

Stutt: Jafnvel þótt fallist var á með kæranda, að í reynd hefði verið ómögulegt eða illgerlegt að starfrækja kaffiteríu hans innan veggja safns meðan lokun þess stóð yfir, var ekki litið framhjá því að sú aðstaða hafi komið til vegna lokunar safnsins sjálfs og ekki verið afleiðing þess að kæranda hefði verið skylt að láta af starfseminni. Var kröfu kæranda um lokunarstyrk því hafnað.

Kærandi, sem rak veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safns, sótti um lokunarstyrk vegna lokunar safnsins um vorið 2020. Ríkisskattstjóri hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í rekstri mötuneytis og kaffistofu, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í kærunni er rakið að kærandi reki veitingasölu og mötuneyti í húsnæði safnsins X. Safninu hafi verið lokað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru um vorið 2020 og viðskipti því verið engin hjá kæranda, enda hafi engir viðskiptavinir komist inn í húsnæðið. Engu að síður hafi tveir starfsmenn kæranda starfað launalaust ásamt eiganda í aprílmánuði við þrif, frágang og björgun eða förgun verðmæta, en vörur og matvæli fyrir á aðra milljón króna hafi endað í ruslinu. Að jafnaði séu apríl og maí tekjuhæstu mánuðir ársins í rekstri kæranda og því hafi verið um mikið högg að ræða fyrir starfsemi félagsins. Hinni kærðu ákvörðun sé mómælt þar sem taka verði tillit til þess að safninu hafi verið lokað, en starfsemi kæranda sé innan veggja safnsins og því algerlega háð opnunartíma þess. Engir viðskiptavinir hafi komist inn í húsnæðið og kærandi hafi ekki haft nein úrræði til að aðlaga reksturinn breyttum aðstæðum.

Í umsögn heilbrigðisráðuneytisins sagði að ekki verði talið að veitingastað, sem staðsettur sé inni á safni sem gert hafi verið að loka á grundvelli 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, hafi ekki verið unnt til dæmis að útfæra opnun staðarins í samráði við leigusala eða aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum með einhverjum hætti, eins og margir hafi gert á sama tíma. Lokun ýmissar starfsemi og þjónustu hafi leitt til þess að önnur starfsemi hafi þurft að hagræða eða breyta rekstri sínum eða jafnvel loka á gildistíma auglýsingarinnar sem ekki hafi þó leitt til réttar til lokunarstyrks.

Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þótt fallist yrði á með kæranda, að í reynd hefði verið ómögulegt eða illgerlegt að starfrækja kaffiteríuna innan veggja safnsins meðan lokun þess stóð yfir, yrði ekki litið framhjá því að sú aðstaða hafi komið til vegna lokunar safnsins sjálfs og ekki verið afleiðing þess að kæranda hefði verið skylt að láta af starfseminni eftir ákvæðum 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Var kröfu kæranda því hafnað.

ÚY nr. 141/2020 – Lokunarstyrkur – Námskeiðahald og vinnustofur

Stutt: Ekki var fallist á með kæranda, sem sá um námskeiðahald og vinnustofur, að félaginu hefði verið skylt að láta af starfsemi sinni vegna heimsfaraldurs þar sem starfsemi kæranda yrði ekki lögð að jöfnu við íþróttastarf sem fæli í sér sérstaka smithættu. Ekki var talið ómögulegt eða illgerlegt að halda starfseminni úti í meginatriðum að teknu tilliti til takmarkana með breytingum á fyrirkomulagi námskeiðanna. Var ekki talið að Var því kröfu kæranda um lokunarstyrk hafnað.

Í úrskurði þessum var hafnað umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020.

Kærandi, sem var félag sem stóð fyrir námskeiðum og vinnustofum, byggði á því að starfsemi félagsins hafi verið óheimil samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, enda hafi verið hætta á snertingu milli fólks og mikilli nálægð. Ekki sé um að ræða tæmandi talningu á starfsemi í greindu ákvæði heldur sé upptalning þess aðeins í dæmaskyni, sbr. orðalagið „og önnur sambærileg starfsemi“. Kærandi sé einkaleyfishafi X á Íslandi og bjóði upp á staðbundna hópþjálfun þar sem einstaklingar komi saman á námskeiðum og vinnustofum. Algengasti fjöldi þátttakenda á slíkum námskeiðum sé 30 til 35 manns en geti þó orðið allt að 50 manns. Vinsæl námskeið snúist um sjálfrækt þátttakenda til að yfirvinna persónulegar hindranir sem feli í sér samtöl, geðshræringu og huggun sem ekki sé hægt að veita úr fjarlægð. Þá séu gerðar ýmsar æfingar sem feli í sér snertingu og hamagang þar sem fólk svitni og frussi. Ennfremur sé um að ræða hópavinnu í litlum hópum. Hugmyndafræði námskeiðanna byggi á einlægni þátttakenda og krefjist því iðulega mikillar nándar. Sama máli gegni um aðstoð þjálfara sem fari oft fram í mikilli nánd. Kærandi telji því ljóst að starfsemi félagsins teljist til annarrar sambærilegrar starfsemi í skilningi 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, enda feli hún í sér mikla nánd, snertingu og hreyfingu með tilheyrandi hættu á dropasmiti og kæranda ófært að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk á námskeiðum til samræmis við fyrirmæli 4. gr. auglýsingarinnar.

Ekki var fallist á með kæranda að félaginu hefði verið skylt að láta af starfsemi sinni um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Miðað við framkomna lýsingu á starfseminni varð ekki séð að ómögulegt eða illgerlegt hefði verið að halda henni úti í meginatriðum að teknu tilliti til takmarkana með breytingum á fyrirkomulagi námskeiða og æfinga. Var ekki talið að starfsemi kæranda yrði lögð að jöfnu við íþróttastarf og starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa sem fæli í sér sérstaka smithættu, sbr. auglýsingu nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

ÚY nr. 140/2020 – Lokunarstyrkur – Lágmarkstekjur nuddstofu

Stutt: Ekki var fallist á kröfu nuddstofu um lokunarstyrk þar sem rekstrartekjur kæranda voru verulega undir fjárhæðarmörkum sem sett voru fram í skilyrðum fyrir ákvörðun um lokunarstyrki.

Í þessum úrskurði hafði ríkisskattstjóri hafnað umsókn kæranda, sem var nuddstofa, um lokunarstyrk skv. ákvæðum II. kafla laga nr. 38/2020. Taldi ríkisskattstjóri skilyrði 3. töluliðar 4. gr. laganna ekki vera uppfyllt þar sem kveðið var á um að fjárhæð tekna rekstraraðili árið 2019 hafi þurft að vera a.m.k. 4,2 milljónir króna. Hafði starfsemi nuddstofunnar hafist undir lok júní 2019 og rekstrartekjur frá þeim tíma fram til loka janúar 2020 voru samtals tæplega 400.000 kr.

Kærandi fór fram á að honum væri ákvarðaður lokunarstyrku í samræmi við umfang rekstrar síns sem hafi verið að aukast þegar kom til lokunar. Höfðu starfsmenn ríkisskattstjóra svarað því til að kærandi ætti rétt á styrk þar sem starfsemi hans hafði byrjað um mitt ár 2019, þrátt fyrir að tekjulágmarki væri ekki náð.

Ríkisskattstjóri svaraði því til að umsókninni hafi verið synjað þar sem ársrekstrartekjur kæranda hafi ekki náð lágmarki 4,2 miljón króna. Hafi kæranda verið veittur frestur til að tjá sig um ákvörðunina eða leggja fram gögn til skýringar en engar athugasemdir bárust.

Staðfesti yfirskattanefnd ákvörðun ríkisskattstjóra þar sem rekstrartekjur kæranda voru verulega undir fjárhæðamörkum sem sett eru fram í skilyrðum fyrir ákvörðun um lokunarstyrki.

ÚY nr. 60/2021 – Lokunarstyrkur – Lágmarks tekjur heilsulindar og líkamsræktarstöðvar

Stutt: Fallist var á með rekanda heilsuræktarstöðvar að miða ætti við þá dagsetningu þegar raunveruleg starfsemi félagsins hófst frekar en það tímamark þegar félagið var skráð á virðisaukaskattsskrá, þegar reiknaðar voru tekjur félagsins. Var kæranda því veittur lokunarstyrkur.

Í þessum úrskurði hafði ríkisskattstjóri hafnað umsókn kæranda, sem rekur heilsulind og líkamsræktarstöð, um lokunarstyrk skv. ákvæðum II. kafla laga nr. 38/2020. Taldi ríkisskattstjóri skilyrði 3. töluliðar 4. gr. laganna ekki vera uppfyllt þar sem kveðið var á um að fjárhæð tekna rekstraraðili árið 2019 hafi þurft að vera a.m.k. 4,2 milljónir króna. Taldi ríkiskattstjóri að miða yrði upphaf starsemi kæranda við 29. júlí 2019, þegar félagið var skráð í virðisaukaskattsskrá. Tekjur kæranda frá þeim degi til loka febrúar 2020 reiknuðust 3.349.389 kr. miðað við ársgrundvöll og næðu þannig ekki 4.200.000 kr. Hins vegar leit kærandi svo á að miða bæri upphaf starfsemi félagsins við 1. nóvember 2019 þegar félagið hóf sölu á þjónustu. Tók ríkisskattstjóri fram að sá skilningur ætti sér enga stoð í lögum né yrði honum fundinn staður í lögskýringargögnum.

Yfirskattanefnd sagði að í málinu væri ágreiningslaust að kæranda hafi verið skylt að loka heilsuræktarstöð sinni vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þannig 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 væri uppfyllt. Einungis væri deilt um það hvort kærandi uppfylli skilyrði 3. tölul. sömu lagagreinar er lýtur að umfangi rekstartekna, en þar sem kærandi hóf starfsemi eftir 1. janúar 2019 ber í því sambandi að umreikna tekjur félagsins þann tíma sem það starfaði til loka ferbúar 2020 miðað við ársgrundvöll, sbr. ákvæði 2. málsl. greinds töluliðar.

Yfirskattanefnd féllst á með kæranda að miða ætti við 1. nóvember sem upphafstíma starfsemi hans, með vísan til þess að tilgangur laga nr. 38/2020 hafi verið að styðja við minni rekstraraðila sem höfðu orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna faraldursins. Ætti því samanburður að vera gerður á tekjum rekstraraðila á lokunartímabili annars vegar og því tímabili þegar viðkomandi rekstraraðila var heimilt að halda starfsemi úti hins vegar. Ekki ætti því að miða við þegar félagið var skráð hjá skattinum þar sem félagið hafði í raun ekki hafið starfsemi sína. Styðst þessi niðurstaða við það megineinkenni lokunarstyrkja að taka fyrst og fremst mið af tekjufalli í hlutaðeigandi starfsemi.

Önnur úrræði

ÚY nr. 11/2021 – Endurgreiðsla VSK vegna bílaviðgerða – Grafín lakkvarnarmeðferð

Stutt: Yfirskattanefnd féllst á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við svokallaða grafín lakkvarnarmeðferð á fólksbifreið þar sem slík yfirborðsmeðferð teldist frekar jafnast á við almennar lakkviðgerðir bifreiða sem taldar voru falla undir endurgreiðsluákvæðið.

Í úrskurðinum var fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við svokallaða grafín lakkvarnarmeðferð á fólksbifreið þar sem slík yfirborðsmeðferð teldist frekar jafnast á við almennar lakkviðgerðir bifreiða sem taldar voru falla undir endurgreiðsluákvæðið.

Málavextir voru þeir að ríkisskattstjóri hafði synjað beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem byggði á bráðabirgðaákvæði XXXII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem var eitt úrræðið til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Ákvæðið kveður á um að endurgreiða skuli einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálningu eða bílaréttingar fólksbifreiða á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. desember 2020 (sem hefur að vísu verið framlengt til 31. desember 2021). Taldi ríkisskattstjóri vera um að ræða reglulega umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhald, sem ekki væri heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af á grundvelli reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Hélt kærandi því fram að ekki væri hægt að telja viðgerðina til reglubundinnar umhirðu eða minniháttar viðhalds á bifreiðinni þar sem hann hafi greitt 170.000 kr. fyrir og verði breyting á ytra byrði bifreiðarinnar sem frekar mætti líkja við lakkvinnu frekar en bón. Því til viðbótar lýsti seljandi þjónustunnar þjónustunni sem meiriháttar lagfæringu á lakkyfirborði bifreiðarinnar sem sé síðar varið með lakkvarnarhúð sem væri með 5 ára ábyrgð en taki meðferðin tvo til þrjá daga, þá hafi starfsmenn Skattsins fullyrt að viðgerðin félli undir átakið og hafi kærandi því ákveðið að fara í viðgerðina.

Yfirskattanefnd vísaði til nefndarálits efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laganna sem komu bráðabirgðaákvæðinu inn í virðisaukaskattslögin þar sem tiltekið var að endurgreiðslan tæki einnig til vinnu við bílaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði), væri ekki gert ráð fyrir að endurgreiðslan tæki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða. Taldi yfirskattanefnd vera ljóst að meðferðinni væri ætlað að auka slitþol lakkyfirborðs bifreiðarinnar en væri meðferðinni frekar líkt við almennar lakkviðgerðir sem falli undir endurgreiðsluákvæðið fremur en reglulega umhirðu eða minniháttar viðhald bifreiðar. Var Skattinum því gert að greiða kæranda umrædda endurgreiðslu.