Lögum nr. 160/220, um viðspyrnustyrki er ætlað að styðja við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins og aðgerða stjórnvalda í tengslum við hann. Er stuðningnum ætlað að stuðla að því að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, að þeir geti varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist. Styrkirnir eru tekjuskattsskyldir.

Gildissvið laganna nær til einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem hófst fyrir 1. október 2020, og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Með sjálfstæðri starfsemi í lögunum átt við starfsemi aðila sem greiða laun, eru skráðir á launagreiðendaskrá eða gera grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020, og eru eftir atvikum skráðir á virðisaukaskattsskrá. Utan gildissviðsins falla stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu hins opinbera.

Tímabil viðspyrnustyrks var upphaflega allir almanaksmánuðir tímabilsins nóvember 2020 til og með maí 2021. Þá var tímabilinu framlengt með lögum nr. 37/2021 til nóvember 2021, ásamt frekari útvíkkunum á úrræðinu. Til  að rekstraraðili eigi rétt á viðspyrnustyrk úr ríkissjóði, fyrir hvern og einn mánuð, þurfa eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi: 

 1. Tekjur mánaðarins sem umsókn varðar voru að lágmarki 40% lægri en sama mánaðar á árinu 2019. Hægt þarf að vera að rekja tekjufallið til kórónuveirufaraldursins eða aðgerða stjórnvalda til að sporna gegn honum. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama mánaðar árið 2019 skal miða við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í mánuðinum sem umsóknin varðar, frá því starfsemi hófst, þar til loka október 2020.
  Dæmi: Ætli aðili að sækja um styrk vegna desember 2020, en hóf störf í apríl 2020 er ekki hægt að miða við desember mánuð ársins 2019. Bæri þá að deila tekjum hans á tímabilinu 1. apríl til 31. október í fjölda daga, sem væru í því tilviki 214. Þá fengist út fjárhæð á hvern dag sem yrði svo margfölduð með dagafjölda desember mánaðar 2020 og fengist þannig viðmiðunarfjárhæðin. Tekjurnar rekstraraðilans í desember 2020 mættu svo ekki vera umfram 60% af viðmiðunarfjárhæðinni til að eiga rétt á styrknum.
  Heimilt er við sérstakar aðstæður að notast við annað tímabil til viðmiðunar ef rekstraraðili sýnir fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans. Í slíkum tilvikum skal þá almennt miða við tekjur í sama almanaksmánuði 2018.
  Ef rekstraraðila hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur í mánuðinum sem umsóknin varðar eða viðspyrnustyrkur fyrir aðra mánuði telst hann ekki til tekna í þeim mánuði við útreikning á tekjufalli skv. ákvæðinu.
 2. Tekjur rekstraraðila hafi verið að lágmarki kr. 500.000 á tímabilinu 1.1.2020-31.10.2020. Hafi starfsemi hans hafist eftir 1.1.2020 ber að umreikna tekjur hans frá þeim tíma til 31.10.2020 yfir í 305 daga viðmiðunartekjur.
  Dæmi: Hafi aðili hafið starfsemi 12. júní 2020 ætti að margfalda tekjur hans frá þeim degi með 2,15 (heildardagar frá 1. janúar til 30. október (305) deilt með fjölda daga frá upphafsdegi starfssemi til loka október (142)). Með slíkum útreikningi kemur í ljós hvort 500.000 kr. skilyrðinu sé fullnægt.
 3. Hann má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019. Álagðir skattar og gjöld mega ekki byggjast á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum til Skattsins s.l. þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Eftir atvikum ber honum einnig að hafa staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur lögum samkvæmt.
 4. Hann má ekki hafa verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Viðspyrnustyrkur skal nema 90% rekstrarkostnaðar rekstraraðila á þeim mánuði sem umsóknin varðar. Getur hann aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. lið 1 hér að framan. Þá getur styrkurinn fyrir hvern mánuð aldrei orðið hærri en:

a)    300 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum eða í sama mánuði 2019 og ekki hærri en 1,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. á bilinu 40–60%.
b)    400.000 kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum og ekki hærri en 2.000.000 kr. enda sé tekjufall á bilinu 60%-80%. Vert er að taka fram að heimilt er að miða við fjölda stöðugilda í sama mánuði á árinu 2019. 
c)    500.000 kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum og ekki hærri en 2.500.000 kr. enda sé tekjufall hærra en 80%. Vert er að taka fram að heimilt að miða við fjölda stöðugilda í sama mánuði á árinu 2019.

Í þeim tilvikum þar sem rekstraraðili hóf starfsemi eftir upphaf sama mánaðar ársins 2019 og umsóknin varðar, skal miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til loka október 2020. Í sömu tilvikum er heimilt að miða fjölda stöðugilda við meðalfjölda stöðugilda hjá rekstraraðila á mánuði, þá heilu almanaksmánuði ársins 2019 sem rekstraraðili starfaði.

Til rekstrarkostnaðar má telja sömu fjárhæð og rekstraraðili gjaldfærði í skattframtali rekstrarársins 2019, vegna reiknaðs endurgjalds, í sama mánuði og umsóknin varðar nema árinu áður, í stað þess að telja til rekstrarkostaðar reiknað endurgjald mánaðarins sem umsóknin varðar. 

Ef aðili hefur fengið atvinnuleysisbætur koma þær til frádráttar frá reiknuðum rekstrarkostnaði. Hafi aðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti vegna mánaðarins sem umsóknin varðar, ber að draga þann stuðning frá reiknuðum rekstrarkostnaði. Sama á við hafi aðilinn hlotið styrk úr Atvinnuleysistryggingarsjóði skv. reglugerð nr. 918/2020, og hafi aðila verið úthlutaður lokunarstyrkur vegna tímabilsins sem um ræðir.

Umsókn um styrkinn ber að beina til Skattsins rafrænt fyrir hvern mánuð í síðasta lagi 31. desember 2021. Ber aðila að staðfesta að hann uppfylli skilyrði fyrir styrkveitingunni, að upplýsingar sem hann gefi upp séu réttar og að hann geri sér grein fyrir að ófullnægjandi eða rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geti varðað sektum. Mun Skatturinn hafa að hámarki tvo mánuði til að afgreiða umsókn eftir að honum berast fullnægjandi gögn og hefur hann rétt á að endurákvarða styrkinn ef kemur í ljós að aðili hafi átt rétt á hærri eða lægri styrk eða hann hafi ekki átt rétt á styrknum yfir höfuð.

Hafi rekstraraðili fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða umfram fjárhæð styrksins, eftir atvikum með dráttarvöxtum. Hafi hann veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar eða þeim verið áfátt að það miklu leyti að það hafði áhrif á ákvörðun um styrk ber honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Er Skattinum heimilt að fella það niður ef rekstraraðili geti sýnt fram á að óviðráðanleg atvik hömluðu upplýsingagjöf hans eða ef hann leiðréttir greiðsluna við Skattinn. Þá getur Skatturinn, ef hann metur svo, kært málið til lögreglu, telji hann að háttsemin geti varðar sektum eða fangelsi.

Tengdir aðilar geta að hámarki fengið 260 millj. kr. í stuðning af viðspyrnustyrkjum, lokunarstyrkjum, tekjufallsstyrkjum og ferðagjöfum. Getur sú fjárhæð numið 30 millj. kr. hjá fyrirtækjum, öðrum en litlum fyrirtækjum sem hafa ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, sem töldust í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019.

Ber Skattinum að birta opinberlega þá lögaðila sem ákvarðaður hefur verið viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum þessum og fjárhæð ef hún nemur 100.000 evrum eða meira.

Viðurlög vegna brota af ásetningi eða stórfelldu gáleysi á lögum þessum skal vera sektir eða fangelsi allt að sex árum nema brotið teljist minni háttar.

Verður lögum nr. 38/2020 samhliða lögum þessum, breytt á þá leið að málsgrein bætist við 5. gr. laganna þess efnis að hafi viðspyrnustyrkur verið ákvarðaður fyrir sama tímabil og lokunartímabil nær til, dregst hann frá lokunarstyrk.