Tekjufallsstyrkjum er ætlað að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í upphafi var hugmyndin að tekjufallsstyrkjum til styrktar litlum rekstraraðilum og einyrkjum en við meðferð Alþingis voru fleiri rekstraraðilar felldir undir gildissvið laganna. Tekjufallsstyrkirnir eru veittir fyrir allt að fimm stöðugildi á hvern rekstraraðila og tekur styrkfjárhæð mið af rekstrarkostnaði og tekjufalli.  Tekjufallsstyrkur gagnast því sérstaklega smærri rekstraraðilum og getur styrkurinn numið allt að 17,5 m.kr. á rekstraraðila.

Skilyrði fyrir veitingu styrksins eru sem hér segir:

  1. Lögaðili hafi byrjað rekstur fyrir 1. apríl 2020.
  2. Tekjur lögaðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 voru a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.
  3. Skil á opinberum gjöldum (sköttum og sektum) og álagning byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum til Skattsins síðast liðin  þrjú ár áður en umsókn berst. Ársreikningum hafi verið skilað o.fl.
  4. Lögaðili hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Fjárhæð tekjufallsstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Tekjufallsstyrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila. Tekjufallsstyrkur fyrir hvern almanaksmánuð á tímabilinu 1. apríl til 31. október getur jafnframt aldrei orðið hærri en:

  1. 400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila á bilinu 40–70%.
  2. 500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila meira en 70%.

Þá ber að nefna að:

  1. Hafi rekstraraðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum nr. 50/2020 á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr.
  2. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru dregst hann frá tekjufallsstyrk.

Umsóknarfrestur fyrir tekjufallsstyrki rann út 1. maí 2021.

Líkan um útreikninga tekjufallsstyrkja (til niðurhals)

Hafir þú orðið fyrir miklu tekjufalli vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda bendum við þér á að skoða neðangreint. Þá megum við til með að benda þér á reiknilíkan vegna tekjufallsstyrkja sem aðgengilegt í hlekk hér fyrir ofan, en því er ætlað að aðstoða lesendur að meta áhrifa laganna á sinn rekstur.