Með lögum nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, var komið á fót svokölluðum lokunarstyrkjum til rekstraraðila sem gert var að hætta starfsemi vegna ráðstafana í þágu sóttvarna. Síðan þá hefur úrræðinu verið framlengt  með tilheyrandi breytingum.

Þann 5. nóvember 2020 samþykkti Alþingi áframhald lokunarstyrkjanna, vegna hinnar svokölluðu „þriðju bylgju“ faraldursins hér á landi. Skilyrði fyrir styrknum eru sem hér segir:

  1. Aðila var gert skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu.
  2. Tekjur hans í apríl 2020 voru a.m.k. 75% lægri á lokunartímabili en á jafnlöngu tímabili í næstu heilu almanaksmánuðum á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
  3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 verið a.m.k. 4,2 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Í tilviki rekstraraðila sem falið var að loka eftir 18. september 2020 er heimilt að miða við að tekjur séu a.m.k. 350 þús. kr. á mánuði miðað við næsta heila almanaksmánuð á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
  4. Ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019.
  5. Bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann hefur ekki verið tekinn til slita.

Áframhald lokunarstyrkja, sem ganga nú undir nafninu „Lokunarstyrkir 3“, var samþykkt af Alþingi. Aðilar sem gert var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu tímabundið vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum og tóku gildi 18. september 2020 eða síðar, eiga rétt á styrknum uppfylli þeir frekari skilyrði laga nr. 38/2020 um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Vegna Lokunarstyrks 3 var gerð breyting frá fyrri lokunarstyrkveitingum er varðar viðmiðunartímabil vegna tekjufalls. Skilyrði tekjufalls var því sem hér segir; tekjur skulu vera a.m.k. 75% lægri á lokunartímabili en á jafnlöngu tímabili í næstu heilu almanaksmánuðum á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.

Þann 11. maí 2021 samþykkti Alþingi lagabreytingu er varðar heildarfjárhæð lokunarstyrkjanna. Fjárhæð lokunarstyrkja (ásamt styrkjum samkvæmt lögum um ferðagjöf, viðspyrnustyrkjum samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki) til tengdra rekstaraðila getur nú numið allt að 260 millj. kr. í stað 120 millj. kr. eins og áður var.Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Hafi aðili fengið lokunarstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.           

Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn.

Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.