Ráðningarstyrkir

Í september 2020 setti félagsmálaráðherra reglugerð sem gerir atvinnurekendum fært að ráða til sín starfsmenn gegn styrkveitingu, svo kallaður ráðningarstyrkur. Er markmið reglugerðarinnar að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum og er reglugerðin sett vegna þess ástands sem hefur skapast á vinnumarkaði vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónaveiru.

Helstu skilyrði sem sett eru fyrir veitingu styrksins eru sem hér segir:

Atvinnurekendur:

  • Ráðning sem nýtur styrks þarf að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda atvinnurekandans.
  • Áður en sótt er um styrk þarf að vera fyrir a.m.k. einn starfsmaður hjá atvinnurekanda.
  • Á síðustu sex mánuðum má ekki starfsmanni hafa verið sagt upp sama starfi og ráðgert er að ráða í.
  • Atvinnurekandi skal vera í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld.

Atvinnuleitendur:

  • Atvinnuleitandi sem ráðinn er á ráðningarstyrk þarf að vera skráður sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun i a.m.k. 3 mánuði eftir atvinnumissi.

Þegar atvinnuleysi á landsvísu eða einstöku landsvæði fer yfir 6% er vikið frá ákveðnum skilyrðum ráðningarstyrkja.

Vinnumálastofnun hefur umsjón með styrkveitingunni og hægt að finna betri upplýsingar á vefsíðu stofnunarinnar.