Laun í sóttkví

Efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins eru slík að tekjutap atvinnurekenda getur ollið því að erfitt getur reynst þeim að greiða laun. Þá kann einnig að vera að starfsmenn eigi ekki rétt á veikindadögum sitji þeir í sóttkví vegna fyrirmæla heilbrigðisyfirvalda en þó án þess að sýna einkenni þess að vera sýktir. Því þótti félags- og barnamálaráðherra nauðsynlegt að einstaklingar, sem sæta sóttkví samkvæmt framangreindu, hafi möguleika á því að sækja um greiðslur vegna launataps sem þeir kunna að verða fyrir.

Til að bregðast við framangreindu lagði ráðherrann fyrir Alþingi frumvarp til laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.“ Alþingi samþykkti lögin þann 20. mars sl. og eru helstu breytingar sem lögin boða sem hér segir:

  1. Launamönnum sem sæta sóttkví séu greidd laun. Í þeim tilvikum sem launamenn sem sæta sóttkví en eiga ekki veikindarétt eða önnur réttindi til launa skal ríkið standa straum að launakostnaði.
  2. Markmið laganna er að einstaklingur geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
  3. Lögin eiga eingöngu við almennan vinnumarkað. Þar sem lögin taka einungis til atvinnurekenda, launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga á almennum vinnumarkaði er áætlað að það nái til rúmlega 140 þúsund einstaklinga, eða alls 75% allra starfandi einstaklinga á vinnumarkaði.
  4. Aðstoð háð skilyrðum. Í lögunum er gert ráð fyrir að tiltekin skilyrði þurfi að vera uppfyllt, t.a.m. að atvinnurekandi sæki um greiðslur vegna launamanns sem sætir sóttkví, að atvinnurekandi hafi sannanlega greitt laun hans á tímabilinu (1. febrúar 2020 – 30. apríl 2020) o.fl.
  5. Fjárhæðartakmörkun. Þá er gert ráð fyrir því í lögunum að greiðslur ríkisins samkvæmt frumvarpinu geti aldrei verið hærri en 633.000 kr. fyrir hvern launamann miðað við heilan almanaksmánuð.

Með lögum nr. 37/2020 var tímabil greiðslna sem atvinnurekendur hafa greitt launamönnum sem sæta sóttkví framlengt til 30. september 2020 og umsóknarfrestur framlengdur til samræmis, til 31. desember 2020. Þessu til viðbótar var bætt var við málsgrein þess efnis að ekki sé hægt að fá greiðslu samkvæmt lögunum ef launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi farið til útlanda þrátt fyrir að hafa mátt vera ljóst að hann þyrfti að fara í sóttkví við komu til landsins aftur.

Með lögum nr. 112/2020 var tímabil greiðslna sem atvinnurekendur hafa greitt launamönnum sem sæta sóttkví framlengt til 31. desember 2021. Var umsóknarfresturinn samhliða framlengdur til 31. mars 2022.