Hlutabótaleiðin

Almennt

Hlutabótaleiðin er úrræði stjórnvalda til að sporna gegn uppsögnum á ráðningarsamböndum atvinnurekenda við starfsfólk sitt á meðan á erfiðleikum stendur vegna COVID-19 faraldursins.

Sú útgáfa leiðarinnar sem gildir í dag felur í sér þau skilyrði, sem atvinnurekandi þarf að uppfylla til að geta nýtt sér úrræðið, eru fimm. Í fyrsta lagi þarf hann að bera ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í öðru lagi þarf meðaltal mánaðartekna hans, frá 15. mars 2020 til og með þeim degi sem starfsmaður sækir um atvinnuleysisbætur, hafi lækkað um 25% hið minnsta. Í þriðja lagi má hann ekki á tímabilinu 1. janúar 2020 – 31. maí 2022 ákveða að greiða út arð, lækka hlutafé, kaupa eigin hlutabréf o. fl. Í fjórða lagi þarf hann að hafa staðið skil á launatengdum og opinberum gjöldum, og í fimmta lagi þarf hann að hafa staðið skil á framtölum og fylgigögnum síðustu þrjú ár áður en umsókn berst eða hann hóf starfsemi, ef það var síðar.

Fyrir launamann til að eiga rétt á hlutabótum þarf starfshlutfall að hafa verið lækkað um a.m.k. 20% og launamaður þarf að halda a.m.k. 50% starfshlutfalli.

Fyrir ítarlegri upplýsingar og skilyrði, sjá umfjöllun undir „framlenging hlutabótaleiðar“ hér að neðan.

Þann 20. mars samþykkti Alþingi lög nr. 23/2020 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa. Markmið laganna er að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þar til rekstrarerfiðleikar vegna COVID-19 faraldursins eru yfirstaðnir. Þær breytingar sem til voru lagðar í lögunum giltu því aðeins í afmarkaðan tíma en hafa verið framlengd með tilheyrandi breytingum síðan þá. Verður hér saga hlutabótaleiðarinnar rakin.

Upphafleg hlutabótaleið

Fyrirtæki sem áttu í tímabundnum rekstrarörðuleikum eru voru hvött til þess að nýta sér þann kost að lækka starfshlutfall starfsfólks tímabundið fremur en að grípa til uppsagna, með vísan til þess þjóðhagslega ávinnings að halda ráðningarsamböndum í gildi.

Helstu atriði laganna voru sem hér segir:

 1. Einstaklingur sem sótti um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli gat átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Sá réttur tók til þeirrar fjárhæðar sem næmi hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Þau skilyrði sem voru fyrir hendi voru að fyrra starfshlutfallið hafi verið lækkað hlutfallslega um að minnsta kosti 20% og að launamaðurinn haldi 25% starfshlutfalli hið minnsta.
 2. Þá gátu greiðslur frá vinnuveitanda og greiðslu atvinnuleysisbóta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns síðustu þriggja mánaða frá umsókn.
 3. Ekki skyldi koma til skerðingar samkvæmt því sem hér að framan segir ef meðaltal heildarlauna launamanns voru undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns var yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf mátti skerðing heldur aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta skv. ákvæðinu nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.

Á móti hinu lækkaða starfshlutfalli gátu launþegar sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í samræmi við hið minnkaða starfshlutfall. Greiðsla atvinnuleysisbóta til einstaklinga var reiknuð af hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, 456.404 kr. til samræmis við hið minnkaða starfshlutfall. Þannig skyldi launþegi eiga rétt á atvinnuleysisbótum að fjárhæð 228.202 kr. (456.404 kr. x 50%) sé starfshlutfall hans minnkað um 50 prósentustig, hafi ekki komið til skerðingar vegna hámark greiðslna er lögin tilgreindu. Ekki voru önnur skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins í upphafi. Úrræðið gilti frá 15. mars – 1. júní 2020.

Vegna samdráttar hjá sjálfstætt starfandi einstaklingum vegna COVID-19 faraldursins var þeim með sömu lögum gert fært að sækja um tímabundna stöðvun atvinnurekstrar hjá Skattinum (RSK 5.02) og eiga þannig rétt á atvinnuleysisbótum. Sjálfstætt starfandi þarf því ekki að tilkynna um lok á starfsemi líkt og honum var skylt til að eiga rétt á bótum, fyrir gildistöku hinna nýju laga.

Framlenging hlutabótaleiðar

Með lögum nr. 44/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa (framlenging á hlutabótaleið), var hlutabótaleiðin framlengd. Fyrsta framlengingin var frá 1. júní – 30. júní 2020. Kveðið var á um að á því tímabili ættu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall, ekki skerða fjárhæð atvinnuleysisbóta viðkomandi. Ætti hið sama við um aðra framlengingu hlutabótaleiðarinnar, tímabilið 1. júlí – 31. ágúst 2020, að því gefnu að fyrra starfshlutfall hafi lækkað um 20% að lágmarki og að launamaður haldi hið minnsta 50% starfshlutfalli.

Þegar launamaður tilkynnir Vinnumálastofnun um nýtingu úrræðisins ber vinnuveitanda að staðfesta eftirfarandi þætti:

 • Ótakmarkaða skattskyldu sína hér á landi.
 • Að meðaltal mánaðartekna hans, frá 15. mars 2020 fram til þess dags er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur, hafi lækkað um hið minnsta 25% samanborið við;
  • meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019,
  • meðaltal mánaðartekna frá 1. júní 2019 – 31. ágúst 2019,
  • meðaltal mánaðartekna 1. desember 2019 – 29. febrúar 2020 eða
  • meðaltal mánaðartekna frá 1. mars 2019 – 29. febrúar 2020.
 • Að hann hafi ekki ákveðið arðsúthlutun eftir 1. júní 2020, hlutafjárlækkun með greiðslu til hluthafa eða kaupa á eigin hlutum, greitt annars konar greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt víkjandi lán fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða nákomnum aðila hans lán eða annað fjárframlag sem varðar ekki öflun, tryggingu eða viðhald rekstratekna eða greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3 milljónum króna til hvers um sig.
 • Að hann hafi staðið skil á launatengdum- og opinberum gjöldum á þeim degi sem launamaður tilkynnir um að hann hyggist nýta ákvæðið.
 • Að hann hafi síðustu þrjú ár áður en umsókn skv. ákvæðinu barst, staðið skil á skattframtölum, fylgigögnum þess, ársreikningum, öðrum skilagreinum og skýrslum, til Skattsins, sem og tilkynnt um raunverulega eigendur.

Komi til þess á tímabilinu 1. júní 2020 – 31. maí 2022 að vinnuveitandi uppfyllir ekki eitthvað af framangreindum skilyrðum og skuldbindingum, ber honum að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar á tímabilinu 1. júní 2020 – 31. ágúst 2020, auk 15% álags.

Ákvæði um ákvörðun atvinnuleysisbóta er samhljóða því sem fram kom með lögum nr. 23/2020. Ef inn í viðmiðunartímabilinu eru greiðslur vegna foreldra- eða fæðingarorlofs er heimilt að óska eftir að meðaltal heildarlauna miðist við þá fjárhæð sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tóku mið af.

Með lögum nr. 112/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), var hlutabótaleiðin framlengd aftur án efnislegra breytinga, en gildir hún frá 1. september – 31. desember 2020.

Með lögum nr. 145/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (tekjutengdar bætur), var hlutabótaleiðin framlengt aftur án efnislegra breytinga. Gildir hún fram til 31. maí 2021. 

Þróun skilyrða og takmarkana er fylgja hlutabótaleiðinni og framlengingum á henni.

  Starfshlutfall ekki lægra en Arðgreiðslutakmörkun?
Hlutabótaleið 1 25% Nei
Hlutabótaleið 2 25% Já, til 31. maí 2022
Hlutabótaleið 3 50% Já, til 31. maí 2022
Hlutabótaleið 4 50% Já, til 31. maí 2022
Hlutabótaleið 5 50% Já, til 31. maí 2022