Fjárstuðningur vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti

Lög nr. 50/2020, um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, voru samþykkt á Alþingi þann 29. maí 2020. Gilda þau um fjárstuðning til atvinnurekenda sem hafa þurft að segja upp launamönnum sínum vegna fjárhagslegra örðuleika sem hægt er að rekja með beinum eða óbeinum hætti til ráðstafana sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins, eða til annarra aðstæðna sem skapast hafa vegna hans. Er lögunum ætlað að tryggja réttindi launafólks og styðja við atvinnurekendur sem sjá fram á tekjutap vegna faraldursins.

Taka lögin til aðila á almennum vinnumarkaði, sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og hófu starfsemi sína eigi síðar en 1. desember 2019.

Þarf atvinnurekandi að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að óska eftir stuðningnum:

 • Hafa sagt launamönnum upp störfum, sem hófu störf fyrir 1. maí 2020, vegna aðstæðna sem tengjast kórónuveirufaraldrinum.
 • Meðaltal mánaðartekna hans hafi lækkað um a.m.k. 75% frá 1. apríl 2020, miðað við eitt af eftirtöldu:
  • Meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður.
  • Meðaltal mánaðartekna júní-ágúst árið áður.
  • Meðaltal mánaðartekna frá 1. desember 2019 – 29. febrúar 2020.
  • Meðaltal mánaðartekna frá 1. apríl 2019 – 31. mars 2020.
 • Frá og með 15. mars 2020 má hann ekki hafa ákveðið arðsúthlutun, hlutafjárlækkun með greiðslu til hluthafa eða kaupa á eigin hlutum, greitt annars konar greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt víkjandi lán fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða nákomnum aðila hans lán eða annað fjárframlag sem varðar ekki öflun, tryggingu eða viðhald rekstratekna. Skuldbindur hann sig einnig til að gera ekkert framangreint fyrr en stuðningurinn er að fullu tekjufærður eða eftir atvikum endurgreiddur.
 • Má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem voru á eindaga 31. desember 2019.
 • Hefur staðið skil á framtölum, fylgigögnum, skýrslum og skilagreinum síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst.
 • Hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti miðað við ráðningarkjör 1. maí 2020. Að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og 85.455 kr. á mánuði vegna iðgjaldshluta atvinnurekanda fyrir fullt starf. Vegna orlofslauna sem launamaður gæti átt rétt á er viðbótar stuðningur, þó að hámarki 85% orlofslauna eða að hámarki 1.014.000 kr. fyrir fullt starf.

Stuðningnum er ætlað að ná til uppsagna frá 1. maí 2020 til og með 1. október 2020. Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns eru þrír mánuðir, en þó ekki lengri en samning- eða lögbundinn uppsagnarfrestur varir.

Umsókn um stuðninginn skal skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil en ekki síður en 20. hvers mánaðar. Gerð var breyting á lögunum að því leyti til að heimilt væri að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum fresti, ef öll önnur skilyrði laganna séu uppfyllt.

Þiggi atvinnurekandi umræddan stuðning ber honum að tilkynna launamönnum sínum, sem stuðningurinn varðar, um áform sín um að ráða að nýju í sambærilegt starf og gera þeim starfstilboð. Hafa þeir forgangsrétt að starfinu. Skylda atvinnurekanda fellur niður eftir 12 mánuði frá uppsagnardegi, en í síðasta lagi 30. júní 2021.