Endurgreiðsla virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis

Samkvæmt núgildandi lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt skulu byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis eiga rétt á endurgreiðslu 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað. Tekur endurgreiðslan til nýbygginga, endurbóta og viðhalds en ekki skal endurgreiddur virðisaukaskattur af byggingarefni eða kaupum á vélavinnu eða sérfræðiþjónustu, svo sem þjónusta arkitekta.

Samkvæmt lögum nr. 25/2020 skal ofangreint hlutfall endurgreiðslu nema 100% í stað 60%, á tímabilinu frá 1. mars 2020 – 31. desember 2020. Auk þessa tekur endurgreiðslan til frekari vinnu, svo sem vegna hönnunar nýbygginga og frístundahúsnæðis.

Með lögum nr. 141/2020 var úrræðið framlengt til 31. desember 2021.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts „þriðja geirans“

Aðilar sem hvorki tilheyra opinberum rekstri né einkarekstri, svo sem mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir,  falla undir aðila í „þriðja geiranum“.

Með lögum nr. 25/2020 var einnig gerð samhljóða breyting og þeirri að framan þar sem fyrrnefnd félög þriðja geirans sem starfa í þágu almannaheilla geta fengið 100% endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem félögin hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 – 31. desember 2020, vegna byggingar, endurbóta eða viðhalds á mannvirkjum.

Með lögum nr. 141/2020 var úrræðið framlengt til 31. desember 2021.

Frekari skilyrði fyrir undanþágunni og upplýsingar um leiðréttingaskyldu er að finna í b-lið 7. gr. laga nr. 25/2020.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til einstaklinga utan rekstrar vegna vinnu við bifreiðar

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var bætt við ákvæði til bráðabirgða þar sem einstaklingum er heimilt að sækja um endurgreiðslu á 100% virðisaukaskatts af vinnu manna vegna bílaviðgerða, bílamálunar eða bílaréttingar fólksbifreiða, á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020. Skilyrði endurgreiðslu er að um sé að ræða fólksbifreið í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna heimilisaðstoðar og umhirðu íbúðarhúsnæðis

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, geta eigendur og leigjendur íbúðarhúsnæðis geta fengið 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við heimilisaðstoð og umhirðu íbúðarhúsnæðis á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020.

Með lögum nr. 141/2020 var úrræðið framlengt til 31. desember 2021.

Niðurfelling álags vegna skila á virðisaukaskatti

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, er Skattinum heimilað, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga – útvíkkun á „allir vinna“   

Með lögum nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir), var sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað, viðhald eða endurbætur á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði sem alfarið eru í eigu þeirra, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Með lögum nr. 141/2020 var úrræðið framlengt til 31. desember 2021.