Lög nr. 57/2020, um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, voru samþykkt á Alþingi þann 16. júní 2020. Fái atvinnufyrirtæki heimild til tímabundinnar fjárhagslegrar endurskipulagningar getur það komist í svokallað „greiðsluskjól“ í allt að eitt ár, sem gerir það að verkum að ekki er hægt að koma að vanefndarúrræðum gagnvart fyrirtækinu sem og að ekki greiðslur munu ekki fara fram á gjalddögum krafna.

Lögin eiga við um öll fyrirtæki sem hafa glímt við verulega röskun á starfsemi sem hægt er að rekja beint eða óbeint til opinberra ráðstafana sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins, eða vegna annarra aðstæðna sem skapast hafa vegna hans. Upphaflega þurfti fyrirtæki að vera  búið að sækja um heimildina fyrir 1. janúar 2021, en hefur sá frestur nú verið framlengdur til 1. janúar 2022 með lögum nr. 14/2021.

Skilyrði sem sett eru fyrir umsókn um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis eru eftirfarandi:

 • Fyrirtækið sé með skráð varnarþing á Íslandi.
 • Fyrirtækið hafi verið með atvinnurekstur frá 1. desember 2019 í síðasta lagi.
 • Fyrirtækið hafi greitt laun til eins eða fleiri manna í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari til lágmarkslauna fyrir fullt starf í öllum þessum mánuðum.
 • Samanlagður áætlaður rekstrarkostnað og skuldir fyrirtækisins næstu tvö árin, séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar þess, innistæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.
 • Enn fremur þarf eitt að eftirfarandi skilyrðum að eiga við skuldarann:
  • Mánaðarlegar heildartekjur af starfseminni hafi frá 1. apríl 2020 og þar til sótt er um úrræðið lækkað um 75% eða meira í samanburði við meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 - 29. febrúar 2020.
  • Mánaðarlegar heildartekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið hafi lækkað um 75% eða meira í samanburði við sama tímabil árið áður.
  • Fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75% eða meira í samanburði við sama tíma árið áður.

Skrifleg umsókn skal send til héraðsdóms þar sem m.a. koma fram upplýsingar um eignir og skuldir, upplýsingar um hvernig skilyrðum fyrir veitingu heimildarinnar sé fullnægt ásamt upplýsingum um löggiltan endurskoðanda eða lögmann sem aðstoðar við fjárhagslegu endurskipulagninguna. Þá þurfa síðustu tveir ársreikningar að fylgja með, sem og árshlutauppgjör hafi slíkt verið gert, auk yfirlýsingar löggilts endurskoðanda eða viðurkennds bókara um að bókhald fyrirtækisins sé í lagi.

Meðan umsókn er til meðferðar hjá héraðsdómi og eftir að heimild er veitt er ekki hægt að taka bú fyrirtækisins til gjaldþrotaskipta, láta kyrrsetja eignir þess eða taka þær löggeymslu, gera í þeim fjárnám, ráðstafa þeim með nauðungarsölu, né að beina að fyrirtækinu aðfarargerð til fullnustu öðru en skyldu til greiðslu peninga. Stjórnvöldum er jafnframt óheimilt á því tímabili að neyta þvingunarúrræða gagnvart fyrirtækinu vegna vanefnda þess á skuldbindingu sinni við ríkið eða sveitarfélag. Sá tími sem heimildin er í gildi er undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs.

Samþykki héraðsdómur umsóknina er heimildin veitt til ákveðins dags og stundar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu úrskurðarins en þá verður málið tekið fyrir aftur. Í framhaldinu verður aðstoðarmaður að halda fund með kröfuhöfum innan sex vikna til að kynna þeim stöðu fyrirtækisins og ráðagerðir um hvað gera megi til að koma endurskipulagningunni fram. Á fundinum skal aðstoðarmaður leggja fram ítarlegar upplýsingar um eignir, skuldir og veðréttindi yfir eignum.

Meðan fyrirtæki hefur heimildina er því óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum eða stofna til skuldbindinga á hendur sér nema með samþykki aðstoðarmanns. Einnig er því óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum nema ráðstöfunin verði talin nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri eða endurskipulagningunni og komi þá eðlilegt verð fyrir. Er fyrirtækinu óheimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar nema (i) að því leyti sem skuldbindingin yrði efnd eða skuldin greidd eftir stöðu hennar í réttindaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi í beinu framhaldi af því að heimildin félli niður eða (ii) ef það er nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. Að lokum má félagið ekki stofna til skulda eða annarra skuldbindinga eða leggja höft á eignir sínar eða réttindi nema það sé nauðsynlegt til að halda áfram atvinnurekstri hans eða varna verulegu tjóni.

Útkoman af fjárhagslegu endurskipulagningunni geta verið að frjálsir samningar náist við kröfuhafa, nauðasamningur, sem aðstoðarmaður er bær til að samþykkja án tillits til vilja kröfuhafa, er samþykktur af aðstoðarmanni, nauðasamningur er samþykktur af tilskyldum meirihluta kröfuhafa, í samræmi við almennar reglur, eða gjaldþrot fyrirtækis.

Hægt er, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fá framlengingu á heimildinni til allt að sex mánaða frá þeim degi sem umsókn um framlengingu er lögð fram. Þá er aftur hægt að sækja um framlengingu til allt að þriggja mánaða en samanlagt má heimildin almennt ekki vara lengur en í eitt ár.