Þann 26. mars 2021 samþykkti Alþingi lög, nr. 22/2021, um breytingu á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga. Tilefni lagasetningarinnar var að veita sveitarfélögum heimild til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga til lengri tíma en gert var ráð fyrir í þágildandi lögum, auknar heimildir Lánasjóðs sveitarfélaga til að lána sveitarfélögum vegna rekstrarhalla og veita  sveitarfélögum meira svigrúm við innheimtu fasteignagjalda. Breytingarnar áttu það allar sameiginlegt að tilurð þeirra mátti rekja til áhrifa heimsfaraldurs kórónaveiru.

Eftirfarandi er umfjöllun um helstu breytingar er lögin boðuðu.

Breyting á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011

Breytingarnar fólu í sér heimild til sveitastjórna til að víkja frá stjórnarskipulagi sem annars er ákveðið með lögum en var breytingunni ætlað að auðvelda töku ákvarðana þegar neyðarástand skapast í sveitarfélögum. Hingað til hafði til að mynda verið kveðið á um að eingöngu sé heimilt að nota fjarfundarbúnað á sveitastjórnarfundum ef fjarlægðir innan sveitarfélags séu miklar eða erfiðar samgöngur. Ekki var tekið tillit til heimsfaraldra eins og nú geisar þar sem mælt hefur verið gegn hópamyndunum. Var því talin nauðsyn á að uppfæra ákvæði sveitarstjórnalaga með tilliti til ástandsins sem nú geisar.

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995

Breytingarnar fólu í sér að við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga bættust við tvö bráðabirgðaákvæði er vörðuðu fasteignaskatt. Tilgangur þeirra er að auðvelda fyrir sveitarfélögum að koma til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluörðugleikum sem rekja má til kórónuveirufaraldursins.

Með fyrra bráðabirgðaákvæðinu var lögð fram sú tillaga að álagðir fasteignaskattar árin 2020-2022 skyldu hafa lögveðsstöðu í fjögur ár, sem almennt hefur verið í tvö ár. Sérstaklega er áréttað að um væri að ræða skatta sem ákveðnir væru vegna áranna 2020, 2021 og 2022 en ekki skatta sem eru lagðir eru á á árinu 2023 þrátt fyrir að álagningin kunni að vera ákveðin á árinu 2022. Geti sveitarfélög þannig með slíku auknu svigrúmi samið við fasteignaeigendur sem standa í greiðsluerfiðleikum, um skil á fasteignaskatti, þar sem tímafresturinn varðandi lögveðið er rýmri en almenna reglan gerir ráð fyrir. Hættan á glötun lögveðsréttar sveitarfélaga vegna slíkra krafna er þannig minni þó svo samið sé um greiðslufrest.

Síðara bráðabirgðaákvæðið heimilar sveitarfélögum rétt til ákvörðunartöku um lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta á álögð fasteignagjöld tiltekinna aðila á árunum 2020-2022. Er einna helst horft til þess að sveitarfélög mega almennt gera greiðsluáætlun við gjaldendur fasteignagjalda en ákvæðið felur í sér að sveitarfélög geti á grundvelli eigin reglna sem heimila gerð greiðsluáætlana við gjaldendur sem falla undir tiltekin skilyrði sem sett eru í reglunum, án þess að dráttarvextir leggist á kröfurnar sem áætlanirnar taka til. Gera áætlanir ráð fyrir að sveitarfélögin setji skilyrði fyrir lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta að gjaldandinn eigi við rekstrarerfiðleika að stríða, sem eingöngu stafar af skyndilegu og ófyrirséðu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins. Sveitarfélögunum er ætlað að útfæra reglurnar eftir sínu höfði, þó svo að gætt sé að framangreindum skilyrðum. Er þá einnig talið að sveitarfélög ættu að tilgreina nánar í reglum sínum skilgreiningu á því hvað teljist vera rekstrarerfiðleikar, hvaða gögn þurfi að leggja fram og jafnvel önnur frekari skilyrði. Byggist þetta svigrúm sveitarfélaganna á sjálfstjórnarrétti þeirra en er talið mikilvægt að reglurnar séu skýrar og hlutlægar til að tryggja jafnræði. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 22/2021 kemur fram vilji löggjafans til þess að sveitarfélögin hafi fyrrnefnt svigrúm. Þrátt fyrir það svigrúm beinir umhverfis- og samgöngunefnd því til sveitarfélaga að hafa reglurnar sem skilvirkastar. Kemur fram að t.a.m. mætti binda skilyrði þess um „rekstrarerfiðleika“ samkvæmt lögunum við skilyrði í lögum nr. 118/2020 um tekjufallsstyrki.

Telji sveitarfélög ástæður til er þeim heimilt að setja sér sameiginlegar reglur um þetta efni. Er þá auk þess vert að taka fram að ákvæðinu er einnig ætlað að ná til niðurfellingar eða lækkunar dráttarvaxta á kröfur gjaldenda fasteignaskatta sem leigja fasteign sína til aðila sem eru í rekstrarerfiðleikum vegna sömu aðstæðna og að ofan er getið.

Breyting á lögum um stofnun opinbers hlutafélag um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 150/2006

Með breytingunni er tekinn af allur vafi að tilgangur Lánasjóðs sveitarfélaga sé ekki eingöngu að veita lán vegna tiltekinna verkefna á tímabilinu 2020-2022, heldur falli þar undir lánveitingar til að mæta rekstrarhalla sveitarfélaga á tímabilinu, en er í því samhengi gengið út frá því að rekstur sveitarfélaga snúi að verkefnum í þágu opinberra hagsmuna sem hafi þannig almenna efnahagslega þýðingu. Sé þannig einna helst um að ræða lögbundin verkefni sveitarfélaga og verkefni sem ekki eru rekin í samkeppni. Getur sjóðurinn einnig lánað einstökum stofnunum eða fyrirtækjum á vegum sveitarfélaga til að mæta rekstrarerfiðleikum þeirra, séu þau ekki í samkeppnisrekstri.