Meðal þeirra margvíslegu aðgerða stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveiru má nefna aðgerðir í þágu nýsköpunar sem í daglegu tali hafa fengið viðurnefnið; sókn í nýsköpun.

Eins og stendur má skipta aðgerðunum niður í átta flokka, sem hér segir:

 1. Sprota- og nýsköpunarsjóðurinn Kría
 2. Stuðnings-Kría – mótframlagslán
 3. Tækniþróunarsjóður
 4. Átak til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu
 5. Aukin fjárfestingarheimild lífeyrissjóða í vísissjóðum
 6. Matvælasjóður
 7. Frádráttur einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpun
 8. Aukin frádráttur nýsköpunarfyrirtækja - Rannís

1. Sprota- og nýsköpunarsjóðurinn Kría

Þann 12. júní 2020 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóð. Lögunum, nr. 65/2020, er ætlað að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensk atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Um er að ræða hugmynd sem kynnt var áður en fór að gæta áhrifa kórónuveirufaraldurs en lagasetningunni hrint í framkvæmd sem hluta af aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagserfiðleika í tengslum við faraldurinn.

Hlutverk sjóðsins er fjárfesting í sprota- og nýsköpunarfélögum sem uppfylla tiltekin skilyrði sem verða sett með lögum og reglum. 

2. Stuðnings-Kría – mótframlagslán

Til að bregðast við vanda lífvænlegra sprotafyrirtækja sem lentu í rekstrarvanda vegna COVID-19 heimsfaraldurs, ákváðu stjórnvöld, með tímabundna stuðningsúrræðinu Stuðnings-Kría, að bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum samkvæmt fyrir fram ákveðnum skilyrðum.

Stuðnings-Kría felur í sér mótframlagslán til fyrirtækja gegn þeirri meginforsendu að fjárfestir sé tilbúinn að veita fyrirtæki tiltekna fjármögnun.

Nýsköpunarsjóði Atvinnulífsins var falin framkvæmd umsóknaferlisins en umsóknarfrestur rann út 10. september 2020.

3. Tækniþróunarsjóður

Tækniþróunarsjóður var efldur um 700 m.kr og verður fjárhæðin nýtt til fjármögnunar nýrra verkefna. Þessi auknu framlög hafa þegar skila sér í fleiri styrkúthlutunum og má þar nefna síðast sumarúthlutun til 33 verkefna núna í lok ágúst sl.

Framkvæmdaraðili er Rannís.

4. Átak til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu

150 millj. kr. var úthlutað til átaksverkefnis í heilbrigðisþjónustu en 12 verkefni voru fjármögnuð. Upplýsingar um úthlutunina og verkefnin sem styrkveitingu fengu má finna á vef stjórnarráðsins.

5. Aukin fjárfestingarheimild lífeyrissjóða í vísissjóðum

Með lögum nr. 37/2020 var fjárfestingarheimild lífeyrissjóða í vísissjóðum aukin úr 20% í 35%.

Þá er það gert að skilyrði að innlausn í sjóðunum skuli eigi fara fram fyrr en að lágmarki fimm árum liðnum frá því að sjóðirnir hófu fjárfestingar.

Heimildin er í gildi til 1. janúar 2025 en lífeyrissjóði verður ekki gert að innleysa hlutdeildarskírteini sem fjárfest var í að þeim tíma loknum.

6. Matvælasjóður

Með lögum nr. 31/2020 var Matvælasjóður stofnaður. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun í framleiðslu og vinnslu matvæla í sjávarútvegi og landbúnaði.

Matvælasjóði er skipt upp í fjóra styrkjaflokka; Kelda, Afurð, Bára og Fjársjóður en þeim er öllum ætlað að styrkja mismunandi tegund verkefna.

a)    Keldunni er ætla að styrkja rannsóknarverkefni sem hafa það að markmiði að skapa nýja þekkingu.

b)    Í tilviki Afurðar er styrkur veittur verkefnum sem eru í þeim fasa að vera komin af hugmyndastigi en ekki tilbúin til markaðssetningar. Verkefnin leiða af sér afurð.

c)     Styrkveitingar úr styrkjaflokki Bárunnar er ætlað að styrkja verkefn á hugmyndastigi.

d)    Fjársjóði er svo að lokum ætlað að veita styrk til sóknar á markað.

Umsóknarfrestur um styrkveitingu úr sjóðnum var til og með 21. september 2020.

Á heimasíðu stjórnarráðsins má finna stefnu sjóðsins, handbók og aðrar upplýsingar um sjóðinn.

7. Frádráttur einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpun

Með lögum nr. 37/2020 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sem einnig hefur gengið undir heitinu Aðgerðarpakki II í daglegu tali samþykkti Alþingi auknar frádráttarheimildir einstaklinga vegna fjárfestingar í nýsköpun.

Nánar til tekið var frádráttarheimild einstaklinga utan atvinnurekstrar vegna fjárfestinga í hluta- eða einkahlutafélögum sem uppfylla tiltekin skilyrði laganna (nýsköpunarfyrirtæki) aukin. Nemur frádráttarheimild þessi nú 75%. Þá hækka fjárhæðamörk heildarfjárfestingar einstaklings sem nýtur þessarar frádráttarheimildar úr 10 millj. kr. í 15 millj. kr.

Skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar

Í 2. og 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 má finna þau skilyrði sem fjárfesting þarf að uppfylla til að njóta þessa skattafsláttar.

Inntak ákvæðisins er sem hér segir.

Til þess að einstaklingur geti nýtt sér heimild til framangreinds frádráttar þurfa öll eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:

 1. Fjárfesting einstaklings í félagi nemi að lágmarki 300 þús. kr. á almanaksári.
 2. Hver einstaklingur getur nýtt frádráttarheimild vegna heildarfjárfestinga sem nemi að hámarki 15 millj. kr. á almanaksári.
 3. Einstaklingur geti sýnt fram á að fjárfesting hafi verið að fullu greidd.
 4. Fjárfesting einstaklings sé til komin vegna hlutafjáraukningar í félagi.
 5. Félagið skili lista til ríkisskattstjóra yfir þátttakendur hlutafjáraukningarinnar og aukningin sé skráð í hlutafélagaskrá.
 6. Einstaklingur sé hvorki tengdur félaginu né félagasamstæðum þess, tveimur árum fyrir skráða hlutafjáraukningu, á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna tengdra félaginu eða ef einstaklingur á eða mun eiga rétt á, með beinum eða óbeinum hætti, meira en 30% eignarhlutdeild í félaginu eða atkvæðarétti þess. Einstaklingur telst jafnframt vera tengdur félaginu ef viðskipti hans við félagið vegna hlutafjáraukningarinnar eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila.

Félag skv. ofangreindu þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Félagið sé stofnsett á Íslandi eða innan annars EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og með fasta starfsstöð á Íslandi.
 2. Hjá félaginu starfi ekki fleiri en 25 starfsmenn og félagið sé með árlega veltu undir 650 millj. kr. og/eða efnahagsreikning undir 650 millj. kr. Ef félag er hluti af félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings.
 3. Félagið hafi lokið greiðslu á öllu lágmarkshlutafé vegna stofnunar þess.
 4. Félagið hafi ekki verið skráð á skipulegan verðbréfamarkað.
 5. Félagið hafi ekki, þegar hlutafjáraukning á sér stað, verið starfandi á markaði lengur en sjö ár frá fyrstu sölu þess í viðskiptalegum tilgangi.
 6. Félagið sé rekið í hagnaðarskyni.
 7. Félagið eigi ekki í fjárhagsvanda.
 8. Íslenska ríkið eigi ekki útistandandi endurgreiðslukröfu á félagið vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar.
 9. Félagið hafi sent ríkisskattstjóra ársreikning sinn fyrir næstliðið reikningsár sem gerður hefur verið í samræmi við lög um ársreikninga.
 10. Félagið sýni fram á að andvirði hlutafjáraukningarinnar verði ráðstafað í þágu viðskiptastarfsemi þess. Ef félagið hefur ekki hafið viðskiptastarfsemi ber að nota að lágmarki 30% af andvirðinu til rannsókna eða þróunar á viðskiptastarfsemi sem hefjast skal innan tveggja ára frá skráningardegi hlutafjáraukningarinnar.
 11. Hlutafjáraukning í félagi geti að hámarki numið 2.000 millj. kr. í heild. Ef félag er hluti af félagasamstæðu nær hámarkið til samstæðunnar.
 12. Áður en hlutafjáraukning fer fram … 9) skal félag fá staðfestingu ríkisskattstjóra á því að öll skilyrði þessarar málsgreinar séu uppfyllt. Sækja skal um staðfestinguna á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og getur hann krafið félagið um öll nauðsynleg gögn vegna hennar. Ríkisskattstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þau félög sem hljóta staðfestingu samkvæmt ákvæði þessu og skal hún birt á vefsvæði ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

Eftirtalin starfsemi félags fellur ekki undir ákvæði þetta:

a.    starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir,

b.    starfsemi sem felst í útleigu fasteigna eða lausafjár,

c.    starfsemi eignarhaldsfélaga,

d.    starfsemi fjárfestingarfélaga,

e.    starfsemi eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999,

f.    starfsemi sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga,

g.    starfsemi sem felst í kvikmyndaframleiðslu,

h.    starfsemi sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum,

i.    starfsemi tengd fjárfestingu og/eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða,

j.    starfsemi sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum,

k.    starfsemi sem felst í hvers kyns námuvinnslu.

8. Aukin frádráttarheimild nýsköpunarfyrirtækja - Rannís

Með lögum nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir), var tímabundið gerð breyting á lögum nr. 152/2009 um nýsköpunarfyrirtæki. Er veittur sérstakur frádráttur árin 2021 og 2022 til nýsköpunarfyrirtækja sem eru eigendur að rannsóknar- & þróunarverkefni (e. R&D) sem hlotið hafa staðfestingu Rannís. Frádrátturinn skal nema 35% af útlögðum kostnaði til lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25% í tilfelli stórra fyrirtækja. Þessi frádráttur er í dag 20%.

Með breytingunni eiga fyrrnefnd nýsköpunarfyrirtæki þá rétt á 35% frádrætti frá á álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum.

Þá hækkar hámarkskostnaður til útreiknings á frádrætti í 1.100.000.000 kr. var 600m kr. á ári en 900 m.kr ef um var að ræða aðkeypta R&Þ vinnu.

Í athugasemdum við frumvarpið benti KPMG á nokkra annmarka sem eru á núverandi lögum. Sjá hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1930.pdf. Efnahags- og viðskiptanefndin beindi því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að endurskoða þá annmarka sem komu fram í umsögn KPMG.