Fram kom í lögum nr. 38/2020 að lánastofnun sem gert hefur samning við Seðlabanka Íslands um lánveitingar vegna COVID-19 geti veitt tilteknum rekstraraðilum lán er nemur allt að 10% af tekjum rekstraraðilans á rekstrarárinu 2019, þó að hámarki 40 millj. kr. Lán þessi að 10 millj. kr. skulu vera að fullu tryggð af ríkissjóði og 85% af lánum umfram það.

Lánin skulu vera að lágmarki til 30 mánaða og bera sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni (1,75% eins og stendur). Í samningi lánastofnunar við Seðlabanka Íslands er heimilt að kveða á um sérstakt álag á vexti sé lánsfjárhæð stuðningsláns hærri en 10 millj. kr. Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá upphæð stuðningsláns við útborgun þess, til að standa undir kostnaði við umsýslu stuðningslána. Fjárhæð hennar skal nánar ákvörðuð í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnun skv. 2. mgr. 20. gr. en skal þó að hámarki vera 2% af höfuðstól stuðningsláns. Lánastofnun er ekki heimilt að taka aðra þóknun eða gjald fyrir afgreiðslu stuðningsláns.

Skuli lán njóta framangreindrar tryggingar ríkissjóðs skal lántaki uppfylla átta skilyrði.:

  1. Tekjur á 60 daga samfelldu tímabili árið 2020 hafi að minnsta kosti verið 40% lægri en á sama tímabili 2019. Hafi hann hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
  2. Tekjur árið 2019 hafi að lágmarki verið 9 millj. kr. og að hámarki 1.200 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
  3. Launakostnaður hafi a.m.k. verið 10% af rekstrarkostnaði árið 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
  4. Hann hefur ekki greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
  5. Hann er ekki í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga.
  6. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019, og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum.
  7. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
  8. Hann uppfyllir hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru eru liðin hjá.

Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan eins mánaðar frá því að lánastofnun krafði rekstraraðila um endurgreiðslu.

Telji lánastofnun að rekstraraðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar svo að sektum eða fangelsi geti varðað skal hún kæra málið til lögreglu.