Brúarlán fyrirtækja - ríkisábyrgð

Lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997 er breytt tímabundið á grundvelli laga nr. 25/2020 á þann veg að ríkissjóði skuli heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán (brúarlán) lánastofnana til fyrirtækja. Fyrirgreiðslan byggir á því að Seðlabankinn veiti 50% ábyrgð á veitt viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Er það í höndum lánastofnana að ákveða hvaða fyrirtæki geta fengið lán með ábyrgðinni.

Þá var af þessu tilefni samþykkt fyrir Alþingi frumvarp að fjáraukalögum 2020, sbr. lög nr. 26/2020, þann 30. mars 2020. Heimild ráðherra til að semja við Seðlabanka Íslands kemur fram í heimildargrein 7.32 laganna.  Í frumvarpi að fjáraukalögunum kemur fram að gert sé ráð fyrir að samningurinn muni setja eftirfarandi skilyrði við veitingu ábyrgða:

  1. Ábyrgðir taki eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjumissi eða meira milli ára. Jafnframt er það forsenda að vandi fyrirtækisins sé ófyrirséður og að það geti með viðeigandi aðstoð orðið rekstrarfært þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru.
  2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða sem þær ráða yfir til aðstoðar fyrirtækjum og að lán með ábyrgðum verði því aðeins veitt að hefðbundin úrræði dugi ekki til.
  3. Kveðið verður á um hámarkslán til einstakra fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að þau geti að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði viðkomandi fyrirtækis á næstliðnu ári.
  4. Við ákvörðun kjara lánveitingar taki lánastofnun tillit til þess að hún ber aðeins hluta áhættu við veitingu lánsins.
  5. Ábyrgðin verður afturkölluð að 18 mánuðum liðnum.
  6. Lán takmarkist við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
  7. Heimilt verði að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.d. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu.
  8. Umfangi veittra ábyrgða verði skipt með eftirfarandi hætti: (a) fyrirtæki með færri en 20 starfsmenn; (b) fyrirtæki með 20–100 starfsmenn; (c) fyrirtæki með 100–250 starfsmenn; og (d) fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn.

 

Til viðbótar framangreindum skilyrðum ber ráðherra að skipa nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara lánveitinga.  Nefndin getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi.

Eru einnig sett skilyrði um að fyrirtækjum með viðbótarlán með ríkisábyrgð sé ekki heimilt að greiða eigendum sínum arð né að kaupa eigin hlutabréf meðan lánin eru útistandandi.

 

Skipting ábyrgðar á brúarlánum til fyrirtækja á tímabili úrræðis