Greiðslufrestur á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjald

Með lögum nr. 25/2020, um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, sem voru samþykkt af Alþingi þann 31. mars 2020 voru gerðar breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Fólu breytingarnar í sér að greiðslufrest á allt að þremur greiðslum afdregins skatts í staðgreiðslu af launum og tryggingagjalds með gjalddaga á tímabilinu 1. apríl 2020 – 1. desember 2020.

Frestun er heimiluð fram til 15. janúar 2021, séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Skilyrði frestunar eru:

 • Að launagreiðandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu. Af lögskýringargögnum má ráða að skilyrðið telst uppfyllt ef samdráttur rekstrartekna nemur þriðjungi eða meira, launagreiðandi á ekki nægt handbært fé til að standa undir útgjöldum og á ekki nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði. Skilyrðið er þó ekki bundið við þessar aðstæður. 
 • Að félag úthluti ekki arði eða kaupi eigin hluti á árinu 2020 og að úttekt eigenda á árinu 2020 sé ekki umfram reiknað endurgjald þeirra.
 • Að launagreiðandi hafi þann 31. desember 2019 ekki verið í vanskilum með skatta, gjöld og skattsektir sem þá voru komin á eindaga. Af lögskýringargögnum má ráða að horfa skuli framhjá vanskilum ef vanskilafjárhæð er óveruleg að virtri veltu launagreiðanda.
 • Að álagðir skattar og gjöld launagreiðandans á síðast liðnum þremur árum byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum staðgreiðslu.

Umsókn um frest skal beint til Skattsins í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Veiting þessa frest þýðir þó ekki að Skatturinn staðfesti að skilyrðin séu öll uppfyllt. Getur hann krafist rökstuðnings og gagna og komi í ljós annmarkar eða að skilyrðin séu ekki uppfyllt getur hann beitt 10% álagi og dráttarvöxtum.

Launagreiðandi getur óskað eftir auknum fresti og greiðsludreifingu til 15. dags mánaðanna júní-ágúst 2021 ef hann verður fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020. Ber að óska þess frests fyrir 15. janúar 2021.

Úrræðið er ekki ætlað opinberum aðilum eða þeim sem þegar voru að glíma við varanlega rekstrarörðugleika í upphafi ársins 2020.

Greiðsludreifing – samþykkt 11. maí 2021

Þann 11. maí samþykkti Alþingi frekari breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990. Með nýju breytingunni er lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til að skila afdreginni staðgreiðslu af launum eða tryggingargjöldum vegna ársins 2020 til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 gert kleift að sækja um að þeim greiðslum verði dreift í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.Skilyrðin fyrir þessari greiðsludreifingu eru:

 • Að aðili sé á umsóknardegi í skilum með öll opinber gjöld, skatta og skattsektir önnur en staðgreiðslur af launum og tryggingargjöld sem komin voru á eindaga 31. desember 2019.
 • Að álagðir skattar og gjöld á árinu 2020 séu ekki byggð á áætlun vegna vanskila á skattframtölum, skýrslum og skilagreinum.
 • Að bú aðila hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið.

Umsóknarfrestur vegna greiðsludreifingu er 10. júní 2021 og skal umsókn vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður. Í umsókninni þarf aðili að staðfesta að hann uppfylli ofangreind skilyrði.

Fyrsti gjalddagi greiðsludreifingar er 1. júlí 2022. Gjalddagi kröfu í greiðsludreifingu er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi krafa í greiðsludreifingu ekki verið greidd á eindaga skal greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

Verði vanskil á hinum þremur frestuðum greiðslum fellur greiðsludreifing niður og ógjaldfallnar kröfur í greiðsludreifingu falla í gjalddaga. Sömu sögu er að segja ef bú aðila er tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið.

Jöfnun tekjuskatts og eftirgjöf skulda

Með lögum nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir), var aukið við bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Á grundvelli þess var félögum með takmarkaðri ábyrgð, sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, heimilað að fresta að hluta eða öllu leyti um eitt ár, greiðslu tekjuskatts sem álagður verður á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019, sé um fyrirsjáanlegan taprekstur á yfirstandandi rekstrarári að ræða. Slík frestun tekjuskatts má að hámarki nema 20 milljónum króna. Rekstraraðilum bar að tilkynna Skattinum um þá fjárhæð sem frestað var, fyrir 10. nóvember 2020 og því tilkynningarfrestur liðinn.  Skal frestunin vera í gildi fram að álagningu ársins 2021. 

Að uppfylltum frekari skilyrðum getur félagið þá lækkað skattkröfuna vegna rekstrarársins 2019 sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins 2020. Skatteign reiknast 20% af rekstrartapi við álagningu á árinu 2021.

Skilyrðin fyrir frestun og jöfnun voru eftirfarandi:

 1. Að arði verði ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafan er óuppgerð við ríkissjóð, þ.e. við álagningu 2021 (lok október 2021). Nema ef hin frestaða skattgreiðsla var hærri en sú sem hægt var að jafna að þá gilda skilyrðin þangað til sá hluti fjárhæðarinnar sem var umfram hefur verið endurgreidd.
 2. Lögaðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan lögaðilinn hóf starfsemi. 

Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap) eins og nú hefur verið samþykkt í eitt skipti. Nemi rekstrartap hærri fjárhæð en því sem nægilegt er til að jafna frestaðan skatt, yfirfærist það rekstrartap yfir á næstu ár með hefðbundnum hætti.

Nemi frestuð skattgreiðsla hærri fjárhæð en jöfnuð verður skulu dráttarvextir falla á fjárhæð sem nemur mismuninum frá þeim tíma þegar hann hefði fallið í gjalddaga hefði frestun ekki komið til. Dráttarvextir reiknast frá sama tíma af frestaðri fjárhæð reynist skilyrði frestunar ekki til staðar.

Skattinum skal heimilt að fella niður dráttarvexti þegar lögaðili sem frestar skattgreiðslu getur sýnt fram á að hann hafi haft réttmæta ástæðu, þegar Skattinum var tilkynnt um frestun, til að ætla að skatteign næmi að lágmarki fjárhæð jafnri hinni frestuðu skattgreiðslu.   

Myndrænn samanburður á skilyrðum úrræða „frestun staðgreiðslu“ og „jöfnun tekjuskatts“

  Frestun staðgreiðslur Jöfnun tekjuskatts
Verulegir rekstrarörðugleikar? Nei
Takmörkun á arðsúthlutun (og sambærilegum
úthlutunum til hluthafa)?
Já, út 2020 Já, fram að álagningu 2021 eða endurgreiðslu
Ekki í vanskilum

Heimild ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs

Samkvæmt lögum nr. 25/2020 var gerð breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, þess efnis að ráðherra sé með reglugerð heimilt að lækka eða fella úr gildi fyrirframgreiðslu tekjuskatts á árinu 2020. Skattgreiðslan skal því frestast fram að álagningu.

Gerði ráðherra svo með því að auka bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 1227/2019, um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2020. Í því er kveðið á um að lögaðilum sé heimilt, án umsóknar, að ákveða að greiða ekki fyrirframgreiðslu tekjuskatts á gjalddögum 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2020.

Var síðar gerð breyting á bráðabirgðaákvæðinu sem fól í sér að einnig væri lögaðilum heimilt að greiða ekki fyrirframgreiðslu tekjuskatts á gjalddögum 1. júlí, 1. ágúst og 1. september 2020.

Eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp og umbreyting kröfu í hlutafé

Endurvakin voru tímabundin ívilnandi ákvæði sem sett voru á árinu 2010 til að bregðast við því efnahagsástandi sem þá ríkti. Ákvæðin lúta að skattalegri meðhöndlun eftirgjafar á rekstrarskuldum, þ.m.t. þegar félag greiðir skuld sína með hlutum í sjálfu sér.

Eftirgjöf

Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2020, 2021 og 2022 skal lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vera heimilt að færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu.

Skilyrði fyrir yfirfærslu eru:

 1. Að skattaðili hafi fyrnt að fullu allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum.
 2. Að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020 til og með 2022.

Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027. Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.

Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu.