Umsóknarfrestur nýrra verkefna vegna skattafrádráttar fyrir nýsköpunarfyrirtæki (fyrirtæki sem stunda rannsóknir eða þróun) rennur út 1. október kl. 16:00.

KPMG Law vill minna á að umsóknarfrestur fyrir umsóknir nýrra verkefna vegna skattafrádrátt fyrir nýsköpunarfyrirtæki (fyrirtæki sem stunda rannsóknir eða þróun, lítil sem stór) rennur út fimmtudaginn 1. október nk., kl. 16:00, skv. heimasíðu Rannís. Síðustu ár hefur fresturinn verið til miðnættis þann dag.

Vert er að athuga hvort viðskiptavinir KPMG vinni að verkefnum sem uppfylla skilyrðin. Umsóknin getur skilað fyrirtækjum viðbótar frádrætti frá álögðum tekjuskatti eða beinni peningagreiðslu frá ríkissjóði, sem nemur 35% af útlögðum kostnaði (lítil félög) eða 25% af útlögðum kostnaði (stór félög), vegna þeirra verkefna sem eru í gangi á árinu 2020. Skilyrði er að um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað að hámarki 1,1 milljarður kr. þar af mega allt að 200 milljónir kr. vera vegna aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu.

Skattafrádráttur eða endurgreiðsla getur því numið allt að 385 milljónum króna.

Umsóknarkerfið hjá Rannís hefur tekið breytingum frá því sem það var þegar umsóknum var skilað 1. apríl 2020 vegna framhaldsverkefna. Nú þurfa þeir sem sendu inn umsóknir 1. apríl að senda aftur inn umsóknir sínar vegna lagabreytingarinnar sem gerð var eftir 1. apríl sem hækkaði endurgreiðsluhlutfallið sem og viðmiðunarfjárhæðirnar.

Mælt er með að félög hugi að umsóknum sínum tímanlega þar sem nýja kerfið kallar eftir viðbótar upplýsingum frá því sem var gert í fyrra umsóknarkerfi og því er ekki nóg að færa eingöngu upplýsingar úr fyrri umsókn inn í nýja kerfið.

Skilyrði úthlutunar

Fyrirtæki þarf að hafa fengið staðfestingu Rannís á rannsóknar- eða þróunarverkefni til að eiga rétt á skattafrádrætti. Skilyrði þess að verkefni hljóti slíka staðfestingu er að það teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögum nr. 152/2009 og einnig:

  1. að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu og viðskiptaáætlun sé vel skilgreind, og 
  2. að sýnt sé fram á með gögnum að varið verði a.m.k. 1 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili, og  
  3. starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á. 

Fyrirtæki getur ekki fengið skattafrádrátt ef:

  • Það á í fjárhagsvanda. Með því er m.a. átt við að bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þetta á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur. 
  • Íslenska ríkið á útistandandi endurgreiðslukröfu á umsækjandann vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar. 

Hugtökin rannsóknir og þróun eru í þessu samhengi skilgreind á eftirfarandi hátt: 

Rannsóknir: Skipulegar rannsóknir eða veigamiklar athuganir sem hafa að markmiði að stuðla að nýrri þekkingu og færni við að þróa nýjar vörur, ferla eða þjónustu eða leiða til verulegra umbóta á þeim vörum, ferlum eða þjónustu sem þegar er til staðar. Þær felast í gerð íhluta í flókin kerfi, og geta falið í sér smíði frumgerða í rannsóknarstofuumhverfi eða umhverfi með viðmótshermun á fyrirliggjandi kerfum og einnig tilraunaverkefnum, þegar nauðsyn krefur vegna rannsókna og þá einkum vegna almennrar staðfestingar á tækni.

Þróun: Öflun, sameining, mótun og notkun á fyrirliggjandi vísindalegri, tæknilegri, viðskiptalegri og annarri hagnýtri þekkingu og kunnáttu í því skyni að þróa nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu. Þetta getur m.a. einnig tekið til starfsemi sem miðar að skilgreiningu á hugmynd, áætlanagerð og skrásetningu nýrra vara, verkferla eða þjónustu. Þróun getur falist í hönnun frumgerðar, gerð sýnisútgáfu, framkvæmd tilraunaverkefnis, prófunum og að sannreyna nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu í umhverfi sem er einkennandi fyrir raunveruleg vinnsluskilyrði þar sem aðalmarkmiðið er að gera frekari tæknilegar endurbætur á ófullmótuðum vörum, verkferlum eða þjónustu. Hér getur líka verið um að ræða þróun á markaðshæfri frumgerð eða tilraunaverkefni, þegar slík frumsmíð er óhjákvæmilega endanleg markaðsvara þar sem framleiðsla á henni er of kostnaðarsöm til þess að nota eingöngu til kynningar og til að sannreyna eiginleika hennar.

Viðmiðunarfjárhæðir rannsóknar- og þróunarkostnaðar 

Tímabundin ákvæði gilda árin 2020 og 2021 þar sem fjárhæð rannsóknar- og þróunarkostnaðar til viðmiðunar á skattafrádrætti nýsköpunarfyrirtækja verður að hámarki 1,1 milljarður kr. á rekstrarári, miðað við að ekki sé um að ræða samstarfsverkefni. Hámarks skattafrádráttur / endurgreiðsla getur því orðið allt að 385 milljónir kr. hvort ár.

Sé um að ræða aðkeypta rannsóknar- og þróunarvinnu má slíkur kostnaður nema allt að 200 milljónum kr. af 1,1 milljarða hámarkinu. 

Veltumiðmið 

Skilgreining á litlum fyrirtækjum er nú að fyrirtæki teljast lítil sem eru með færri en 50 starfsmenn og með veltu undir 10 milljónum evra.