Jákvæðar breytingar á skattalögum

Alþing i hefur samþykkt ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld sem ættu að gera fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum einfaldari og fýsilegri. Breytingarnar, sem tóku gildi þann 13. maí síðastliðinn, fela meðal annars í sér afnám staðgreiðslu af söluhagnaði erlendra aðila af fjárfestingum í hlutabréfum íslenskra félaga og einnig afnám staðgreiðslu af vaxtatekjum erlendra aðila af skráðum skuldabréfum íslenskra félaga. Þessar breytingar ættu að leiða til þess að kaup skuldabréfa séu fýsilegri kostur í augum erlendra aðila sem aftur ætti að leiða til þess að fjármögnun íslenskra félaga verði einfaldari. 

Markverðasta breytingin með lögunum er samt sem áður afnám staðgreiðsluskatts af arðgreiðslum milli innlendra félaga með takmarkaðri ábyrgð. 

Afnumin eftir ábendingu KPMG

Með breytingum á lögunum hefur staðgreiðsluskylda af arðgreiðslum milli innlendra félaga með takmarkaðri ábyrgð hluthafa verið afnumin. 

Félög með takmarkaðri ábyrgð hluthafa (hlutafélög, einkahlutafélög og samlagshlutafélög sem eru sjálfstæðir skattaðilar) sem móttaka arð frá félögum með takmarkaðri ábyrgð hluthafa greiða ekki endanlegan skatt af slíkum arðgreiðslum. Þannig myndar móttaka arðs í slíkum tilfellum ekki skattstofn, enda væri með því móti um tvísköttun að ræða.

Slíkar arðgreiðslur hafa hins vegar til þessa sætt staðgreiðslu og skylda hefur hvílt á greiðendum arðs að skila staðgreiðslunni til innheimtumanns ríkissjóðs. Félögin hafa síðan í sínum skattskilum fært frádrátt frá tekjum og þannig í álagningu fengið endurgreidda fjárhæð sem nemur afdreginni staðgreiðslu. Hefur þessi framkvæmd haft það í för með sér að móttakendur arðs hafa í raun verið að veita ríkissjóði lán, sem nemur 22% af arðsfjárhæðinni, í allt upp undir tvö ár í sumum tilfellum. Fyrir lagabreytingu var eina undanþágan frá staðgreiðslu og skilaskyldu til staðar þegar arður var greiddur milli aðila sem höfðu fengið heimild til samsköttunar.

Eftir ábendingu frá KPMG um að afdráttarskyldan fæli í raun í sér óhagræði fyrir bæði greiðendur og móttakendur arðs, auk þess sem ríkissjóður hefði ekki tekjur af þeirri staðgreiðslu sem skilað væri, var gerð breyting á fyrirliggjandi lagafrumvarpi á þá vegu að lagt var til að staðgreiðsluskylda skyldi afnumin þegar um er að ræða arðgreiðslur milli innlendra félaga með takmarkaðri ábyrgð. 

Hefur þessi framkvæmd haft það í för með sér að móttakendur arðs hafa í raun verið að veita ríkissjóði lán í allt upp undir tvö ár í sumum tilfellum.

Rétt er að taka fram að breytingin á ekki einungis við um hefðbundinn arð, heldur einnig arð sem greiðist við lækkun hlutafjár og við úthlutun við slit félaga, þ.e. þann hluta við úthlutun verðmæta sem er umfram stofnverð hlutafjárins. Lagabreytingarnar tóku gildi sama dag og lögin voru samþykkt.

Viðspyrnan mikilvæg

KPMG Lögmenn hafa fylgst náið með efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 og hafa veitt ráðgefandi álit með lagafrumvörpum sem snúa að íslenskum skattarétti. Á þessum tímum er einkar nauðsynlegt að leggja áherslu á að auðvelda fjárfestingu innlendra og erlendra aðila í íslensku efnahagslífi. Viðspyrnan hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú.