Annar aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19 sem var kynntur  21. apríl 2020 var loks samþykktur af Alþingi 11. maí, en rétt er að taka fram að lögin hafa ekki enn verið birt.

Helstu úrræði sem vert er að nefna og hugsanlega geta gagnast fyrirtækjum í landinu eru sem hér segir.

Jöfnun skattgreiðslna lögaðila

Sjái fyrirtæki fyrir að tap verði á rekstrarárinu 2020 geta þau sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts vegna ársins 2019. Skal frestun þessi vera í gildi fram að álagningu ársins 2021. Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er allt að 20 millj. kr.

Að uppfylltum frekari skilyrðum getur félagið þá lækkað skattkröfuna vegna rekstrarársins 2019 sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins 2020. Skatteign reiknast 20% af rekstrartapi við álagningu á árinu 2021 og nemur að hámarki þessum 20. millj kr. í skatt.

Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap) eins og nú hefur verið samþykkt í eitt skipti.

Lögaðili sem hyggst nýta sér úrræðið skal tilkynna Skattinum um fjárhæð þeirrar skattgreiðslu sem hann kýs að fresta fyrir 10. nóvember 2020.

Skilyrðin fyrir frestun og jöfnun eru eftirfarandi:

 1. Að arði verði ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafan er óuppgerð við ríkissjóð, þ.e. við álagningu 2021(lok október 2021). Nema ef hin frestaða skattgreiðsla var hærri en sú sem hægt var að jafna að þá gilda skilyrðin þangað til sá hluti fjárhæðarinnar sem var umfram hefur verið endurgreidd.
 2. Lögaðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan lögaðilinn hóf starfsemi. 

Nemi frestuð skattgreiðsla hærri fjárhæð en jöfnuð verður skulu dráttarvextir falla á fjárhæð sem nemur mismuninum frá þeim tíma þegar hann hefði fallið í gjalddaga hefði frestun ekki komið til. Dráttarvextir reiknast frá sama tíma af frestaðri fjárhæð reynist skilyrði frestunar ekki til staðar. Skattinum skal heimilt að fella niður dráttarvexti þegar lögaðili sem frestar skattgreiðslu getur sýnt fram á að hann hafi haft réttmæta ástæðu, þegar Skattinum var tilkynnt um frestun til að ætla að skatteign næmi að lágmarki fjárhæð jafnri hinni frestuðu skattgreiðslu.   

Eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp og umbreyting kröfu í hlutafé

Endurvakin voru ívilnandi tímabundin ákvæði sem sett voru á árinu 2010 til að bregðast við því efnahagsástandi sem þá ríkti. Ákvæðin lúta að skattalegri meðhöndlun eftirgjafar á rekstrarskuldum, þ.m.t. þegar félag greiðir skuld sína með hlutum í sjálfu sér.

Eftirgjöf

Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2020, 2021 og 2022 skal lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vera heimilt að færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu.

Skilyrði fyrir yfirfærslu eru

 1. að skattaðili hafi fyrnt að fullu allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum.
 2. Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020 til og með 2022.

Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027.

Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.
    
Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu.

Umbreyting á kröfu í hlutafé

Sé skipt á kröfu og hlutafé skal fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og skal matsverðið miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað.

Skuldara ber að tekjufæra mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar.

Kröfuhafa ber eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins.

Mat á verðmæti hlutafjár skal unnið af óháðum matsaðila þegar skipti á kröfu og hlutafé fara fram á milli tengdra aðila.       

Rannsóknar- og þróunarstyrkir (R&Þ styrkir)

Sérstakur frádráttur árin 2021 og 2022 er veittur til nýsköpunarfyrirtækja sem eru eigendur að R&Þ verkefni sem hlotið hafa staðfestingu Rannís. Frádrátturinn skal nema 35% af útlögðum kostnaði til lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25% í tilfelli stórra fyrirtækja. Þessi frádráttur er í dag 20%.

Þá hækkar hámarkskostnaður til útreiknings á frádrætti í 1.100.000.000 kr. Var 600m kr. á ári en 900 m.kr ef um var að ræða aðkeypta R&Þ vinnu.

Í athugasemdum við frumvarpið benti KPMG á nokkra annmarka sem eru á núverandi lögum. Sjá hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1930.pdf. Efnahags- og viðskiptanefndin beindi því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að endurskoða þá annmarka sem komu fram í umsögn KPMG.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til sveitarfélaga – útvíkkun á „allir vinna“    
Sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga er veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað, viðhald eða endurbætur á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði sem alfarið eru í eigu þeirra, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Skattafsláttur einstaklinga vegna fjárfestingar í nýsköpun.  
Samþykktar voru tillögur um að auka hvata til einstaklinga til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Skattafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem uppfyllir skilyrði 2. og 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt hækki tímabundið úr 50% í 75% af fjárhæð fjárfestingar að teknu tilliti til annarra ákvæða laganna. Jafnframt hækki fjárhæðarmörk heildarfjárfestingar einstaklings tímabundið úr 10 millj. kr. í 15 millj. kr.

Aðrar breytingar

Með lögunum voru einnig gerðar aðrar breytingar s.s. skylda Skattsins að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag var afnumin, rýmkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða, tímabil greiðslna til einstaklinga sem sæta sóttkví var framlengt og rekstrarstuðningur við einkarekna fjölmiðla

 

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. 

Lokunarstyrkur – styrkur til rekstraraðila sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna.

Rekstraraðilar sem gert var að hætta starfsemi vegna ráðstafana í þágu sóttvarna skulu eiga rétt á styrk sem nemur allt að 800.000 kr. á hvern launamann, þó að hámarki 2,4 millj. kr. fyrir hvern aðila.

Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Skilyrði fyrir styrknum eru sem hér segir:

 1. Aðila var gert skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu.
 2. Tekjur hans í apríl 2020 voru a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019.  Hafi aðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
 3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 verið a.m.k. 4,2 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 4. Ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019.
 5. Bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann hefur ekki verið tekinn til slita.

Sækja þarf um styrkinn til Skattsins fyrir 1. september næstkomandi og skal hann afgreiddur innan tveggja mánaða.

Hafi aðili fengið lokunarstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.           

Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn.

Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu. 

Stuðningslán

Lánastofnun sem gert hefur samning við Seðlabanka Íslands um lánveitingar vegna COVID-19 getur veitt tilteknum rekstraraðilum lán er nemur allt að 10% af tekjum rekstraraðilans á rekstrarárinu 2019, þó að hámarki 40 millj. kr. Lán þessi að 10 millj. kr. skulu vera að fullu tryggð af ríkissjóði og 85% af lánum umfram það.

Lánin skulu vera að lágmarki til 30 mánaða og bera sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni (1,75% eins og stendur). Í samningi lánastofnunar við Seðlabanka Íslands er heimilt að kveða á um sérstakt álag á vexti sé lánsfjárhæð stuðningsláns hærri en 10 millj. kr. Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá upphæð stuðningsláns við útborgun þess, til að standa undir kostnaði við umsýslu stuðningslána. Fjárhæð hennar skal nánar ákvörðuð í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnun skv. 2. mgr. 20. gr. en skal þó að hámarki vera 2% af höfuðstól stuðningsláns. Lánastofnun er ekki heimilt að taka aðra þóknun eða gjald fyrir afgreiðslu stuðningsláns.

Skuli lán njóta framangreindrar tryggingar ríkissjóðs skal lántaki uppfylla átta skilyrði.:

 1. Tekjur á 60 daga samfelldu tímabili árið 2020 hafi að minnsta kosti verið 40% lægri en á sama tímabili 2019. Hafi hann hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
 2. Tekjur árið 2019 hafi að lágmarki verið 9 millj. kr. og að hámarki 1.200 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 3. Launakostnaður hafi a.m.k. verið 10% af rekstrarkostnaði árið 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 4. Hann hefur ekki greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
 5. Hann er ekki í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga.
 6. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019, og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum.
 7. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
 8. Hann uppfyllir hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru eru liðin hjá.

 Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan eins mánaðar frá því að lánastofnun krafði rekstraraðila um endurgreiðslu.

Telji lánastofnun að rekstraraðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar svo að sektum eða fangelsi geti varðað skal hún kæra málið til lögreglu.