Byggjendur og eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis

Lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt hefur verið breytt á þá vegu að hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna ýmiskonar þjónustu skal nú vera 100% í stað 60%.

Þá skal hið tímabundna endurgreiðsluúrræði vera víðtækara en eldri regla og svipar til þess úrræðis er var sett á tímabundið í kjölfar bankahrunsins. Hið nýja úrræði skal taka til endurgreiðslu byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis á þeim virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er á byggingarstað sem og vinnu vegna endurbóta og viðhalda. Þá skal virðisaukaskattur af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis vera endurgreiddur að fullu.

 

Félög í þriðja geiranum

Þá tekur úrræðið einnig til endurgreiðslu á 100% þess virðisaukaskatts sem mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakar félagseiningar sem starfa undir merkjum samtakanna hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða þessum aðilum virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki.

Frekari skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæði þessu eru eftirfarandi:

  1. Umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
  2. Virðisaukaskattur sem umsókn tekur til stafi ekki af kostnaði vegna lögbundinna skyldna opinberra aðila, svo sem lögmæltra verkefna ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
  3. Samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar sé ekki hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
  4. Umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu skv. 4. mgr.
  5. Umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.

Bílaviðgerðir og heimilisaðstoð

Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.

Á sama tímabili skal endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. 

Gildistími 100% endurgreiðsluúrræðis og frekari skilyrði

1. mars 2020 – 31. desember 2020.

Endurgreiðsla samkvæmt ofangreindu tekur ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts, sbr. VII. kafla laga um virðisaukaskatt. Þá er skilyrði endurgreiðslu að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

Álagi ekki beitt

Þá kveða hin nýju lög á heimild Skattsins skv. tilmælum ráðherra eða að höfðu samráði við hann að fella niður beitingu álags oftar á árinu 2020.

Vænta má þess að Skatturinn muni ekki beita álagi vegna virðisaukaskatts 6. apríl nk. vegna uppgjörstímabil janúar-febrúar 2020, sbr. heimild þess í hinum nýju lögum en frétt þar að lútandi birtist á vef efnahags- og fjármálaráðuneytisins. Frekari umfjöllun má finna á vefsíðu þessari undir kaflanum „Frestun skattgreiðslna“.