Hlutastarfaleiðin

Hlutastarfaleiðin

Launþegar

Með það að markmiði að stuðla að því að viðhalda ráðningarsambandi vinnuveitenda og starfsmanna  samþykkti Alþingi breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum Ábyrgðarsjóð launa.

Með lögunum er félögum sem eiga í tímabundnum samdrætti vegna COVID-19 faraldursins gefið tækifæri á því, með samkomulagi við starfsmenn, að minnka starfshlutfall þeirra um minnst 20 prósentustig en aldrei svo að starfshlutfall verði lægra en 25%. Á móti hinu lækkaða starfshlutfalli geta launþegar sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í samræmi við hið minnkaða starfshlutfall. Ekki eru önnur skilyrði fyrir nýtingu þessa úrræðis. Úrræðið er í gildi frá 15. mars – 1. júní 2020.

Greiðsla atvinnuleysisbóta til einstaklinga skal reiknuð af hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, 456.404 kr. til samræmis við hið minnkaða starfshlutfall. Þannig skal launþegi eiga rétt á atvinnuleysisbótum að fjárhæð 228.202 kr. (456.404 kr. x 50%) sé starfshlutfall hans minnkað um 50 prósentustig, komi ekki til skerðingar vegna hámark greiðslna er lögin kveða á um.

Samtala launa frá vinnuveitanda í hinu minnkaða starfshlutfalli og atvinnuleysisbætur skulu aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. eða 90% af meðaltali heildarlauna síðast liðna þriggja mánaða frá umsókn.

Sjálfstætt starfandi

Vegna samdráttar hjá sjálfstætt starfandi einstaklingum vegna COVID-19 faraldursins er geta þeir sótt um tímabundna stöðvun atvinnurekstrar hjá Skattinum (RSK 5.02) og átt rétt á atvinnuleysisbótum. Sjálfstætt starfandi þarf því ekki að tilkynna um lok á starfsemi líkt og honum var skylt til að eiga rétt á bótum, fyrir gildstöku hinna nýju laga.

Hægt er skoða áhrif lækkunar á starfshlutfalli á laun.

Ítarlegri umfjöllun um hlutastarfaleiðina

Brúarlán til atvinnulífs

Brúarlán til atvinnulífs

Fyrirtæki munu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, geta fengið viðbótarrekstrarlán vegna áhrifa af heimsfaraldrinum. Ríkissjóður mun leggja fram ábyrgðir fyrir helmingi slíkra rekstrarlána og er gert ráð fyrir að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 mö.kr.

Það verður í höndum lánastofnana að ákveða hvaða fyrirtæki geta fengið lán með ábyrgð. Lánin verða þó að uppfylla ákveðin skilyrði og vera til reksturs.

Skilyrði fyrir ábyrgðunum eru eftirfarandi:

 1. Ábyrgðir taki eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjumissi eða meira milli ára. Jafnframt er það forsenda að vandi fyrirtækisins sé ófyrirséður og að það geti með viðeigandi aðstoð orðið rekstrarfært þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru.
 2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða sem þær ráða yfir til aðstoðar fyrirtækjum og að lán með ábyrgðum verði því aðeins veitt að hefðbundin úrræði dugi ekki til.
 3. Kveðið verður á um hámarkslán til einstakra fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að þau geti að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði viðkomandi fyrirtækis á næstliðnu ári.
 4. Við ákvörðun kjara lánveitingar taki lánastofnun tillit til þess að hún ber aðeins hluta áhættu við veitingu lánsins.
 5. Ábyrgðin verður afturkölluð að 18 mánuðum liðnum.
 6. Lán takmarkist við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
 7. Heimilt verði að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.d. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu.
 8. Umfangi veittra ábyrgða verði skipt með eftirfarandi hætti: (a) fyrirtæki með færri en 20 starfsmenn; (b) fyrirtæki með 20–100 starfsmenn; (c) fyrirtæki með 100–250 starfsmenn; og (d) fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn.

Fleiri skilyrði

Til viðbótar þessum skilyrðum eru einnig sett þau skilyrði að fyrirtækjum með viðbótarlán með ríkisábyrgð sé ekki heimilt að greiða eigendum sínum arð né að kaupa eigin hlutabréf meðan lánin eru útistandandi.

Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara lánveitinga.  Þessi nefnd getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum og skal hún skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020. Skýrslur nefndarinnar skal ráðherra leggja fyrir Alþingi.

Ítarlegri umfjöllun um brúarlán til atvinnulífsins

Frestun skattgreiðslna

Frestun skattgreiðslna

Frestun opinberra gjalda og tryggingagjalds

Launagreiðendur, kunna að eiga rétt á því að fresta skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum, á tímabilinu 1. apríl 2020 – 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis er 15. janúar 2021. Þá hefur gjalddagi áður frestaðra greiðslna á helmingi opinberra gjalda í staðgreiðslu og helmingi tryggingagjalds, frá 1. mars 2020 til 1. apríl 2020 verið frestað enn frekar eða til 15. janúar 2021.

Skilyrði fyrir frestun eru:

 1. Verulegir rekstrarörðugleikar 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls vegna COVID (beint eða óbeint). Skilyrðin eru nánar tilgreind í greinargerð og nefndaráliti með frumvarpinu. Mun Skatturinn því líta til framangreindra lögskýringargagna við mat á hvort skilyrðin séu uppfyllt.
 2. Ekki sé greiddur arður á árinu 2020 eða eigin hlutir keyptir á árinu og að úttekt eigenda á árinu 2020 verði ekki umfram reiknað endurgjald þeirra.
 3. Engin vanskil opinberra gjalda, skatta eða skattsekta né áætlanir vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. virðisaukaskattskýrslum.

Skatturinn getur krafið launagreiðanda um rökstuðning fyrir því að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Leiði endurskoðun sú í ljós að skilyrðin voru ekki uppfyllt skal launagreiðandi sæta álagi, 10% auk dráttarvaxta, miðað við upphaflegan gjalddaga og eindaga. Þeir sem nýta sér þetta úrræði þurfa því að vera nokkuð vissir um að umrædd skilyrði séu uppfyllt þegar sótt er um frestun skattgreiðslunnar.

Fasteignaskattar skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga

Með sömu skilyrðum og að ofan greinir er gjaldendum fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, heimilt að fresta greiðslu þriggja gjalddaga fasteignaskatts. 

Fyrirframgreiðsla

Þá var ráðherra veitt heimild til að ákvarða með reglugerð að á árinu 2020 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu upp í álagðan tekjuskatt vegna tekna ársins 2019, eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslu.

Virðisaukaskattur

Að svo stöddu er ekki verið að fresta greiðslu virðisaukaskatts en með vísan til hinna nýju laga og tilmæla ráðherra má ætla að Skatturinn muni ekki beita álagi vegna greiðslna sem ekki berast á tilskildum tíma þann 6. apríl nk., vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2020.

Ítarlegri umfjöllun um frestun skattgreiðslna