Þann 20. mars samþykkti Alþingi frumvarp félags- og barnamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum Ábyrgðarsjóð launa. Markmið laganna er að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þar til rekstrarerfiðleikar vegna COVID-19 faraldursins eru yfirstaðnar. Þær breytingar sem til eru lagðar í lögunum gilda því aðeins í afmarkaðan tíma.

Launþegar

Fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarörðuleikum eru hvött til þess að nýta sér þann kost að lækka starfshlutfall starfsfólks tímabundið fremur en að grípa til uppsagna. Það er verðmætt fyrir samfélagið að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda.

Helstu atriði hinna nýju laga:

1.     Einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta án þess að komi til hefðbundinnar tekjuskerðingar skv. ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Sá réttur tæki til þeirrar fjárhæðar sem næmi hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Þau skilyrði sem eru fyrir hendi eru að fyrra starfshlutfallið hafi verið lækkað hlutfallslega um að minnsta kosti 20% og að launamaðurinn haldi 25% starfshlutfalli hið minnsta.

2.     Þá geta greiðslur frá vinnuveitanda og greiðslu atvinnuleysisbóta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.

3.     Skal ekki koma til skerðingar samkvæmt því sem hér að framan segir ef meðaltal heildarlauna launamanns eru undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing heldur aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta skv. ákvæðinu nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.

Vegna tímabundinna þrenginga á vinnumarkaði er gert ráð fyrir því að lögin hafi jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Þar sem áhersla er lögð á að fleiri launamenn haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn en ella er lögunum ætlað að draga úr atvinnuleysi.

Sjálfstætt starfandi

Með lögunum var sú tímabundna breyting gerð á lögum um atvinnuleysistryggingar að sjálfstætt starfandi einstaklingi er nú kleift að sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi (RSK 5.04). Felur hin nýja breyting í sér að nóg er að tilkynnt hafi sé um stöðvun rekstrar með tilkynningu til Skattsins um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár (RSK 5.02).

Sjálfstætt starfandi einstaklingi ber að afskrá sig hjá Vinnumálastofnun þá daga sem viðkomandi sinnir tilfallandi verkefnum og á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili.

Í reynd ætti því úrræði sjálfstætt starfandi að nýtast eins og úrræði launagreiðenda og launþega, þ.e. ef dregist hefur saman um 50% á mánuði eru þeir atvinnulausir helming vinnudaga í þeim mánuði.