Frestun opinberra gjalda og tryggingagjalds

Með lögum nr. 17/2020 var gjalddagi, greiðslu í ríkissjóð á helmingi afdreginna opinberra gjalda í staðgreiðslu af launum og helmingi tryggingagjalds í staðgreiðslu, færður frá 1. mars 2020 til 1. apríl 2020.  Með lögum samþykktum af Alþingi 30. mars sl. og hafa ekki verið birt í Stjórnartíðindum, var gjaldagi þessara frestuðu greiðslu færður til 1. janúar 2021. Eindagi verður 15. janúar 2021.

Til viðbótar við framangreinda frestun var með lögum nr. 25/2020 launagreiðendum gefinn kostur á að sækja um frestun til 15. janúar 2021 á þremur greiðslum afdreginna opinberra gjalda í staðgreiðslu af launum og tryggingagjalds, með gjalddaga á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020.

Skilyrði frestunar eru eftirfarandi:

  1. Að launagreiðandinn „eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu“. Skattinum er í hverju og einu tilviki falið að meta hvort þetta skilyrði er uppfyllt. Í upphaflegri gerð frumvarps til laganna voru færð fram nokkur viðmið um verulega rekstrarörðugleika, sem felld voru brott að tillögu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Í nefndaráliti kemur fram að Skattinum sé heimilt að líta til þeirra viðmiða en hann sé ekki bundinn af þeim. Eitt viðmiðanna var að það teldist tekjufall ef tekjur hefðu dregist saman um þriðjung eða meira frá sama mánuði á árinu 2019. Annað var að launagreiðandinn ætti ekki nægt eigið fé til að sækja sér lánfyrirgreiðslu á almennum markaði. Þriðja var að launagreiðandi ætti ekki nægt handbært fé til að standa undir rekstrarkostnaði þegar hann gjaldfélli. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var lagt til að frestunarheimildin næði ekki til launagreiðenda í varanlegum rekstrarörðugleikum, sem töldust vera til staðar ef eigið fé í lok árs 2019 var neikvætt um fjárhæð hærri en nam helmingi innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags eigenda. Þessi takmörkun á gildissvið var felld brott í meðförum þingsins.
  2. Að launagreiðandi úthluti ekki arði á árinu 2020 eða kaupi á því ári eigin hluti og að úttekt eigenda á árinu 2020 verði ekki umfram reiknað endurgjald þeirra.
  3. Að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár.

Umsókn um frestun skal beint til Skattsins á því formi sem hann ákveður. Launagreiðandi þarf að standa Skattinum skil á staðgreiðsluskilagrein og óska eftir fresti í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Skatturinn getur áður en hann afgreiðir frestbeiðni krafið launagreiðanda um rökstuðning og gögn fyrir því að hann eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða. Almenn afgreiðsla Skattsins á umsókn um greiðslufrestun sætir síðari endurskoðun hans og felur ekki í sér staðfestingu á að skilyrði hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt. Ætla verður að með almennri afgreiðslu sé átt við öll tilvik önnur en þau, þegar Skatturinn hefur fyrir afgreiðslu frestumsóknar krafið launagreiðanda um rökstuðning og gögn og í kjölfarið lagt mat á hvort skilyrði hafi verið uppfyllt. Við endurskoðun umsóknar getur Skatturinn krafið launagreiðanda um rökstuðning og gögn fyrir því að hann eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða. Leiði endurskoðun í ljós að skilyrði frestunar voru ekki uppfyllt skal launagreiðandi sæta álagi, 10% auk dráttarvaxta, miðað við upphaflegan gjalddaga og eindaga. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta frekari viðurlögum. Í því felst að refsingu skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 verður ekki beitt ef brot einskorðast við að greiðslu afdregins skatts í staðgreiðslu hefur ranglega verið frestað, þ.e. síðar hefur komið í ljós að skilyrði frestunar voru ekki uppfyllt.

Ekki er kveðið á um rétt launagreiðanda til að kæra synjun Skattsins um frestun greiðslu. Slík synjun varðar ekki álagningu skatta eða ákvörðun skattstofns og verður því ekki kærð til yfirskattanefndar, sbr. 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Synjun er hins vegar kæranleg til æðra stjórnvalds, fjármála- og efnahagsráðherra, skv. almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærufrestur er þrír mánuðir.

Launagreiðandi, sem verður fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020 samanborið við árið 2019, getur sótt um frekari frestun á greiðslum til Skattsins sem réttilega hefur verið frestað til 21. janúar 2021. Getur skatturinn þá heimilað launagreiðanda að dreifa frestuðum greiðslum á dagana 15. júní, 15. júlí og 15. ágúst 2021. Mikið tekjufall er ekki skilgreint, en tiltekið er að horft skuli til virðisaukaskattsskila og „umfang starfseminnar að öðru leyti“. Umsókn um frestun og greiðsludreifingu skal beint til Skattsins fyrir 15. janúar 2021.

Fasteignaskattar skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga

Með sömu skilyrðum og að ofan greinir er gjaldendum fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, heimilt að fresta greiðslu þriggja gjalddaga fasteignaskatts.

Fyrirframgreiðsla

Ráðherra var veitt heimild til að ákvarða með reglugerð að á árinu 2020 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu upp í álagaðan tekjuskatt vegna tekna ársins 2019, eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslu en mælt er fyrir um í 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Engin frestun virðisaukaskatts

Frestun á greiðslu virðisaukaskatts er ekki hluti af samþykktum aðgerðum stjórnvalda. Þrátt fyrir það innibera hin nýju lög ákvæði sem heimilar Skattinum að fella niður álag í kjölfar tilmæla ráðherra. Ráðherra hefur nú birt tilmæli og má því ætla að Skatturinn muni ekki beita álagi vegna greiðslna sem ekki berast á tilskildum tíma þann 6. apríl nk., vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2020.

Tilmæli frá ráðherra eru sem hér segir:

„Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, er 6. apríl 2020 gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2020.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skuli aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla. hefur verið of há. Þá skal aðili sæta álagi ef endurgreiðsla hefur verið of há. Samkvæmt lögunum skal álag vera 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Í lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var lögfest bráðabirgðaákvæði nr. XXXVII, við lög um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu kemur fram að Skattinum sé heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma.

Vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar og að teknu tilliti til þess að í gildi er samkomubann í landinu sem gildir nú til 12. apríl næstkomandi og verður e.t.v. framlengt, telur ráðuneytið að gildar ástæður séu til að beita heimild bráðabirgðaákvæðis nr. XXXVII, laga um virðisaukaskatt, til tímabundinnar niðurfellingar álags vegna skila á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið janúar og febrúar 2020.

Ráðuneytið hefur því beint þeim tilmælum til Skattsins að fella tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 6. apríl 2020 og gildi sú niðurfelling í tíu daga eða til 16. apríl 2020.

Af niðurfellingunni leiðir að ekki er reiknað álag vegna vanskila á virðisaukaskatti sem er á gjalddaga 6. apríl næstkomandi.“