Stuðningur til að veita fyrirtækjum í rekstrarvanda viðbótarlán auk hraðari lækkunar bankaskatts.

Úr kynningu stjórnvalda 21. mars 2020

Um er að ræða lagabreytingar á lögum um ríkisábyrgðir, lögum um Seðlabanka Íslands og síðan setningu Fjáraukalaga 2020, en þessi lög voru samþykkt á Alþingi 30. mars 2020.

1.     Brúarlán fyrirtækja - ríkisábyrgð

Lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997 var breytt á þá vegu að ríkissjóði skal heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Er ráðherra heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmdina gagnvart lánastofnunum. Í samningi skal kveðið á um grunnskilyrði um viðbótarlán með ábyrgð ríkisins samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hluti á meðan ríkisábyrgðar nýtur við.

Ráðherra skipar nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Forsætisráðherra tilnefnir einn nefndarmann, samstarfsnefnd háskólastigsins einn og skal einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Nefnd skv. 2. mgr. getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings skv. 1. mgr. bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.

2.     Ábyrgðir Seðlabanka Íslands v. brúarlána

Frumvarpið boðar breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Samkvæmt breytingunni skal Seðlabanka Íslands heimilt að veita lánastofnunum ábyrgð, án viðtöku trygginga, til að auðvelda þeim að veita viðbótarlán til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Ríkissjóður skal ábyrgjast skaðleysi Seðlabankans vegna þessa.

3.     Fjáraukalög – nýr  liður í fjárlögum (7.32)

Nýr liður, 7.32, orðast svo: Að leita samninga við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Skulu lánastofnanir við lánveitingar uppfylla nánari skilyrði sem ráðherra setur í samningi við Seðlabanka. Í samningnum skulu tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum við veitingu ábyrgða, hvernig tryggja megi að ráðstöfun Seðlabankans byggi á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig eftirliti og reglubundinni skýrslugjöf skuli háttað. Kveðið skal á um það í samningnum að ríkissjóður tryggi Seðlabankanum skaðleysi vegna þess kostnaðar sem hann kann að verða fyrir vegna slíkrar fyrirgreiðslu. Samningur ráðherra við Seðlabankann skal eftir föngum tryggja endurgreiðslu slíkra viðbótarlánveitinga og miða við að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 ma.kr.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kom eftirfarandi fram: 

„Heimild til að semja við Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.

Gerð er tillaga um heimild til handa ráðherra að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi á bilinu 50–70% höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er honum heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum.

Að gerðum samningi milli ráðherra og Seðlabankans mun bankinn gera samninga við lánastofnanir þar sem umfang og skilyrði ábyrgða væru skilgreind nánar. Meiri hlutinn leggur til að heimilaður verði aukinn sveigjanleiki um hlutfall ábyrgða þannig að þær geti orðið á bilinu 50–70%. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána gæti því numið á bilinu 35–50 milljörðum kr. og þar af leiðir að úrræði þetta nemur að hámarki um 70 milljörðum kr. Þar sem um er að ræða fyrirtæki í verulegum fjárhagsvanda má gera ráð fyrir því að tapsáhætta ríkissjóðs sé þónokkur.

Í samningi ráðherra við Seðlabankann er nauðsynlegt að setja fram skilyrði með hvaða hætti bankinn ráðstafar því svigrúmi sem hann hefur til veitingar ábyrgða til einstakra lánastofnana. Tryggja þarf að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu.

Eigi að síður er í ljósi óvissunnar um stöðu fyrirtækja og umfang og eðli þess rekstrarvanda sem þau standa frammi fyrir nauðsynlegt að veita ákveðinn sveigjanleika við útfærslu þeirra skilyrða sem sett verða við veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána þannig að fyrirgreiðslan nýtist þeim fyrirtækjum best sem mest þurfa á henni að halda. Meiri hlutinn metur það svo að afla þurfi nánari upplýsinga um stöðu fyrirtækja á næstu dögum og vikum.

Í greinargerð með frumvarpinu koma fram skilyrði í 8 töluliðum og munu þau liggja til grundvallar við samningsgerðina. Skilyrðin snúa að því að skilgreina hve mikill tekjumissir gefur rétt til fyrirgreiðslunnar, hámark á lánveitingu í hlutfalli við veltu og launagjöld félaga, auk starfsmannafjölda. Þá yrði ábyrgðin tímabundin til 18 mánaða.

Til viðbótar þeim skilyrðum sem nefnd eru í greinargerðinni tekur meiri hlutinn undir breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. mál, að ráðherra skipi nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Forsætisráðherra tilnefnir einn nefndarmann, samstarfsnefnd háskólastigsins einn og skal einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Sú nefnd getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi.

Að auki leggur meiri hlutinn til að sett verði skilyrði um að fyrirtækjum með viðbótarlán með ríkisábyrgð sé ekki heimilt að greiða eigendum sínum arð né að kaupa eigin hlutabréf meðan lánin eru útistandandi. Er sú tillaga einnig í samræmi við breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar á fyrrgreindu frumvarpi.

Þá telur meiri hlutinn að til greina komi að setja fjárhæðarmörk á einstakar lánveitingar og að skylda viðkomandi lánastofnanir til að greiða ekki arð til hluthafa sinna meðan þetta úrræði er til staðar.

Mögulegt er að hlutfall ábyrgða geti orðið breytilegt eftir atvinnugreinum og stærð fyrirtækja þannig að mestur stuðningur verði við minni fyrirtæki sem orðið hafa fyrir mestu tekjutapi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau skilyrði sem fram koma í greinargerðinni liggi til grundvallar og verði útfærð nánar í samningi fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabankans og að þau verði lögð fyrir nefndina til umfjöllunar áður en samningurinn verði undirritaður.“

Í greinargerðinni með frumvarpinu kom eftirfarandi fram: 

Í samningnum skulu einnig tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana og hvernig eftirliti og reglubundinni skýrslugjöf til fjármála- og efnahagsráðherra og Alþingis skuli háttað. Veita þarf ákveðinn sveigjanleika við útfærslu þeirra skilyrða sem sett verða við veitingu ábyrgða, enda mun umfang og eðli vandans fyrst verða ljós á næstu vikum og mánuðum. Engu að síður er gert ráð fyrir því að ráðherra muni í samningi við Seðlabanka setja eftirfarandi skilyrði við veitingu ábyrgða:

  1. Ábyrgðir taki eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjumissi eða meira milli ára. Jafnframt er það forsenda að vandi fyrirtækisins sé ófyrirséður og að það geti með viðeigandi aðstoð orðið rekstrarfært þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru.
  2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða sem þær ráða yfir til aðstoðar fyrirtækjum og að lán með ábyrgðum verði því aðeins veitt að hefðbundin úrræði dugi ekki til.
  3. Kveðið verður á um hámarkslán til einstakra fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að þau geti að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði viðkomandi fyrirtækis á næstliðnu ári.
  4. Við ákvörðun kjara lánveitingar taki lánastofnun tillit til þess að hún ber aðeins hluta áhættu við veitingu lánsins.
  5. Ábyrgðin verður afturkölluð að 18 mánuðum liðnum.
  6. Lán takmarkist við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
  7. Heimilt verði að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.d. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu
  8. Umfangi veittra ábyrgða verði skipt með eftirfarandi hætti: (a) fyrirtæki með færri en 20 starfsmenn; (b) fyrirtæki með 20–100 starfsmenn; (c) fyrirtæki með 100–250 starfsmenn; og (d) fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn.