Yfirlit um aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Þann 21. mars sl. kynntu formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja áform um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Áður hafði Alþingi samþykkt lagabreytingar í tengslum COVID-19 sem varða eftirfarandi:

 1. Aukinn rétt til atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls.
 2. Einstaklingar er sæta sóttkví án einkenna um að vera sýktir voru tryggð laun.
 3. Frestun gjalddaga tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda.

KPMG hefur áður fjallað um þessar lagabreytingar og er umfjöllun sú, ásamt frekari gögnum aðgengileg hér.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú lagt fram frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru („frumvarpið“). Í greinargerð er fylgdi frumvarpinu er meginefni þess skipt upp í 13 hluta og eru sem hér segir:

 1. Greiðslufrestur á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjald
  Frumvarpið boðar breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990. Fela breytingarnar m.a. í sér eftirfarandi:
  1. Greiðslufrestur á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds.
       a. Tímabil: 1. apríl 2020 – 1. desember 2020.
       b.  Frestun til 15. janúar 2021.
       c. Skilyrði fyrir beitingu úrræðisins:
           i. Tímabundnir rekstrarörðugleikar vegna tekjufalls.
               1. Við mat á tekjufalli skal miða við a.m.k. þriðjungssamdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019.
               2.  Ekki er um rekstrarörðugleika að ræða, þótt tekjufall komi til, ef,
                   a. launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði;
                   b. á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga;
                   c.  ef arði er úthlutað á árinu 2020 eða úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra til þess tíma.
           ii.  Engin vanskil opinberra gjalda, skatta eða skattsekta.
          iii.  Skil á skattframtölum lokið.
   d. Eftirfarandi rekstraraðilar geta ekki nýtt sér úrræðið:
           i.  Þeir sem áttu við varanlega rekstrarörðugleika að stríða fyrir upphaf ársins 2020.
          ii.  Opinberir aðilar.
   e. Möguleiki á auknum fresti ef tekjufall er mikið samanborið við fyrra rekstrarár en slíkri ósk skal beint til Skattsins fyrir 15. janúar 2021.
 2. Heimild ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs
  Samkvæmt frumvarpinu skal gerð breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, þess efnis að heimila ráðherra að fella úr gildi fyrirframgreiðslu ársins 2020 upp í álagðan tekjuskatt rekstraraðila vegna ársins 2019. Skattgreiðslan skal því frestast fram að álagningu.
 3. Sérstakur barnabótaauki
  Enn fremur skal bætast við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, ákvæði til bráðabirgða er kveður á um barnabótauka að fjárhæð 20.000 - 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs. Fjárhæð barnabótaaukans ræðst af tekjuskattsstofni einstæðs foreldris eða þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur.
      1.    Barnabótaauki að fjárhæð 40.000 kr. skal greiddur sé fyrrnefndur tekjuskattsstofn undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020.
      2.    Barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. skal greiddur sé fyrrnefndur tekjuskattsstofn yfir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020.
 4. Tímabundin niðurfelling tollafgreiðslugjaldsvegna skipa og flugvéla
  Frumvarpið boðar breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 er felur í sér að ekki skuli innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma, til og með 31. desember 2021.
 5. Dreifing gjalddaga aðflutningsgjalda
  Þá skal samkvæmt frumvarpinu gera breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 er varðar aðflutningsgjöld.
  Skulu aðilar er njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum njóta þess að gjöldunum skuli dreift á tvo gjalddaga með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils. Skal heimildin til færslu innskattsins vera til staðar þrátt fyrir að einungis hluti hans hafi verið greiddur.
  Varðar uppgjörstímabil frá mars 2020 og út árið.
 6. Endurgreiðsla virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis
  Samkvæmt núgildandi lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt skulu byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis eiga rétt á endurgreiðslu 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað. Tekur endurgreiðslan til nýbygginga, endurbóta og viðhalds en ekki skal endurgreiddur virðisaukaskattur af byggingarefni eða kaupum á vélavinnu eða sérfræðiþjónustu, svo sem þjónusta arkitekta.
  Samkvæmt frumvarpinu skal ofangreint hlutfall endurgreiðslu nema 100% í stað 60%, á tímabilinu frá 1. mars 2020 – 31. desember 2020. Auk þessa tekur endurgreiðslan til frekari vinnu, svo sem vegna hönnunar nýbygginga og frístundahúsnæðis.
 7. Endurgreiðsla virðisaukaskatts „þriðja geirans“
  Aðilar sem hvorki tilheyra opinberum rekstri né einkarekstri, svo sem mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir, falla undir aðila í „þriðja geiranum“.
  Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er varða starfsemi tiltekinna félaga þriðja geirans, sem starfa í þágu almannaheilla. Breytingin er samhljóða þeirri er kynnt er hér að framan undir lið 6. Fyrrnefnd félög þriðja geirans sem starfa í þágu almannaheilla geta fengið 100% endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem félögin hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 – 31. desember 2020, vegna byggingar, endurbóta eða viðhalds á mannvirkjum.
 8. Niðurfelling gistináttaskatts
  Í frumvarpinu er lagt til að lög um gistináttaskatt nr. 87/2011 verði breytt á þann veg að gistináttaskattur tímabilsins 1. apríl 2020 – 31. desember 2021 falli niður. Þá skal greiðslu þegar álagðs gistináttaskatts tímabilsins janúar – loka mars 2020 frestað til 5. febrúar 2020.
 9. Heimild til útgreiðslu séreignasparnaðar
  Samkvæmt frumvarpinu skulu lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 taka breytingum á eftirfarandi vegu:
  1. Séreignasparnaður, sem almennt er laus til útborgunar við 60 ára aldur, örorku eða fráfall rétthafa, skal heimilt að taka út.
   1. Heimildin gildir frá 1. apríl – 31. desember 2020.
   2. Hámark útgreiðslu = 12.000.000 kr.
   3. Fjárhæðin skal greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram.
    1. Útgreiðslutími skal styttast hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
   4. Umsókn skal skilað til vörsluaðila séreignasparnaðar.
 10. Lækkun bankaskatts flýtt
  Hinn sérstaki skattur á fjármálafyrirtæki skv. lögum nr. 155/2010 skal strax lækkaður á árinu 2021 niður í 0,145%.
  Áður hafði Alþingi samþykkt að bankaskatturinn (eins og hann er kallaður í daglegu tali) yrði lækkaður í áföngum og samkvæmt því orðinn 0,145% árið 2024. Er því ferlinu flýtt með frumvarpinu.
 11. Aukið svigrúmi sveitarfélaga
  Frumvarpið leggur til breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 og lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Fela breytingar í sér eftirfarandi:
  1. Heimild fyrir sveitarstjórnir að víkja tímabundið frá fjármálareglum 64. gr. sveitarstjórnarlaga.
   1. Heildarútgjöld A- og B-hluta reikningsskila þurfa nú ekki að nema lægri fjárhæð en samanlögðum reglulegum tekjum á hverju þriggja ára tímabili (2020-2022).
   2. Sveitarfélög fá undanþágu frá þeirri reglu að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins.
   3. Tímabundið úrræði frá 2020-2022.
  2. Gjaldendur fasteignaskatta skal heimilt að fresta gjalddögum með sama hætti og með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um frestun gjalddaga staðgreiðslu opinberra gjalda sbr. umfjöllun liðar 1 hér að framan.
 12. Brúarlán fyrirtækja - ríkisábyrgð
  Lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997 skulu taka breytingum á þá vegu að ríkissjóði skal heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán (brúarlán) lánastofnana til fyrirtækja. Fyrirgreiðslan byggir á því að Seðlabankinn veiti 50% ábyrgð á veitt viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.
  Þá hefur að þessu tilefni frumvarp að fjáraukalögum 2020 verið lagt fyrir Alþingi. Heimild ráðherra til að semja við Seðlabanka Íslands kemur fram í heimildargrein 7.32 frumvarpsins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að samningurinn muni setja eftirfarandi skilyrði við veitingu ábyrgða:
  1. Ábyrgðir taki eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjumissi eða meira milli ára. Jafnframt er það forsenda að vandi fyrirtækisins sé ófyrirséður og að það geti með viðeigandi aðstoð orðið rekstrarfært þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru.
  2. Lánastofnanir grípi fyrst til hefðbundinna úrræða sem þær ráða yfir til aðstoðar fyrirtækjum og að lán með ábyrgðum verði því aðeins veitt að hefðbundin úrræði dugi ekki til.
  3. Kveðið verður á um hámarkslán til einstakra fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að þau geti að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði viðkomandi fyrirtækis á næstliðnu ári.
  4. Við ákvörðun kjara lánveitingar taki lánastofnun tillit til þess að hún ber aðeins hluta áhættu við veitingu lánsins.
  5. Ábyrgðin verður afturkölluð að 18 mánuðum liðnum.
  6. Lán takmarkist við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
  7. Heimilt verði að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.d. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu.
  8. Umfangi veittra ábyrgða verði skipt með eftirfarandi hætti: (a) fyrirtæki með færri en 20 starfsmenn; (b) fyrirtæki með 20–100 starfsmenn; (c) fyrirtæki með 100–250 starfsmenn; og (d) fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn.
 13. Ábyrgðir Seðlabanka Íslands v. brúarlána
  Frumvarpið boðar breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Samkvæmt breytingunni skal Seðlabanka Íslands heimilt að veita lánastofnunum ábyrgð, án viðtöku trygginga, til að auðvelda þeim að veita viðbótarlán til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Ríkissjóður skal ábyrgjast skaðleysi Seðlabankans vegna þessa.

Samandregið

Líkt og ofangreind umfjöllun ber með sér, er um afar víðtæka efnahagslega aðgerð að ræða, verði frumvarpið að lögum. Þá er ekki útilokað að gripið verði til enn frekari aðgerða þegar fram líða stundir.

Í greinargerð er fylgir frumvarpinu má finna stutta samantekt um breytingarnar, en hún er sem hér segir:

 • „Greiðslufrestur á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. desember 2020.
 • Heimild til ráðherra um að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs.
 • Sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020 og 20.000 kr. sé hann yfir þeim mörkum.
 • Tímabundin niðurfelling tollafgreiðslugjalds vegna skipa og flugvéla til og með 31. desember 2021.
 • Gjalddögum aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila frá mars 2020 og út árið hjá þeim aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum verði dreift á tvo gjalddaga með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur.
 • Heimild til að endurgreiða mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum og slysavarnadeildum o.fl. 100% þess virðisaukaskatts sem þau hafa greitt af vinnu manna vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, svo og virðisaukaskatt af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu slíkra mannvirkja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
 • Heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur, viðhald og hönnun eða eftirlit þess háttar húsnæðis.
 • Heimild til að endurgreiða eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
 • Niðurfelling gistináttaskatts á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 og frestun á gjalddaga vegna álagðs skatts frá janúar og út mars 2020.
 • Tímabundin heimild til úttektar á séreignarsparnaði til og með 31. desember 2020.
 • Áður lögfestri þrepalækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki flýtt þannig að strax á árinu 2021 verði gjaldhlutfallið fært niður í 0,145% en að óbreyttu hefði það ekki orðið fyrr en á árinu 2024.
 • Við rekstur sveitarfélags þurfi sveitarstjórn ekki að fullnægja þeim tveimur skilyrðum um að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum og að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum árin 2020, 2021 og 2022.
 • Sveitarfélög geti frestað gjalddögum fasteignagjalda með þeim hætti að gjalddagar verði færðir til seinni hluta ársins þannig að hvorki reiknaðir vextir né önnur innheimtugjöld muni falla á kröfu sveitarfélagsins.
 • Heimild fyrir ríkissjóð til að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar í tengslum við samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Heimildar vegna þessara ábyrgðaskuldbindinga verður aflað í fjáraukalögum. Ákvæði laga um ríkisábyrgðir munu því ekki gilda um slíkar skuldbindingar gagnvart Seðlabankanum.
 • Heimild fyrir Seðlabanka Íslands um að bankanum verði veitt fullnægjandi lagastoð til að semja við ríkissjóð um að stofnunin veiti lánastofnunum stuðning til að þau geti veitt viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi bankans af þeirri efnahagsráðstöfun.“

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála og mun KPMG koma til með að gera svo. Þá áætlar KPMG að fjalla nánar um ofangreindar aðgerðir stjórnvalda í fleiri fréttabréfum á næstu dögum og mögulegar breytingar sem þær kunna að sæta við meðferð Alþingis.