Fyrirtæki þurfa að sýna árvekni og aðlögunarhæfni til að bregðast við áhrifum og óvissunni vegna kórónaveirunnar COVID-19. Á sama tíma er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir þau úrræði og þau viðbrögð sem stjórnvöld hafa kynnt varðandi greiðslu skatta og opinberra gjalda sem og annarra ívilnandi aðgerða.

KPMG Lögmenn vilja koma á framfæri eftirfarandi ábendingum til rekstraraðila um aðgerðir á ýmsum sviðum sem ráðlegt er að horfa til i þessu sambandi.

Yfirferð samninga og annarra skuldbindinga

 • Faraldurinn kann að hafa ófyrirséðar afleiðingar á aðfangakeðjur og aðra þætti sem geta gert fyrirtækjum ómögulegt að efna gerða samninga eða aðrar skuldbindingar. Fyrirtæki ættu án tafar að meta hvaða áhrif faraldurinn hefur eða kann að hafa á getu þeirra til að efna samningsskuldbindingar sínar og/eða á getu gagnaðila til að efna skuldbindingar gagnvart þeim. Sé ljóst að fyrirtæki geti ekki efnt skuldbindingar sínar skv. efni samnings eða séu líkur til þess að svo verði á næstunni, ættu fyrirtæki að kanna möguleika á að semja við gagnaðila sína um breytingar sem taki tillit til áhrifa ástandsins, t.d. að semja um lengri fresti eða frekari fyrirgreiðslu. Eftir atvikum kann að vera æskilegt að leita strax leiða til að fara í endurfjármögnun eða aðra fjárhagslega endurskipulagningu.
 • Sé ekki unnt að semja um nauðsynlegar breytingar á samningum þarf að kanna í hverju tilviki hvort samningar innihalda ákvæði sem taka á þeirri röskun sem faraldurinn veldur, hvort sjónarmið um óviðráðanleg ytri atvik eða forsendubrest eigi við, og hverjar skyldur samningsaðila eru við þessar aðstæður. 
 • Ráðlegt er að fá lögfræðilega ráðgjöf varðandi þessa þætti áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar sem kunna að hafa áhrif á langtíma viðskiptasambönd.

Fylgist með skattaívilnandi aðgerðum, hvetjandi aðgerðum og frestun skila

 • Stjórnvöld hafa boðað áætlanir um ívilnandi aðgerðir til aðstoðar við fyrirtækin í landinu. Nú þegar hafa verið samþykkt lög um frestun á greiðslum á staðgreiðslu og tryggingargjaldi og jafnframt eru til meðferðar frumvörp um þátttöku hins opinbera vegna launakostnaðar starfsfólks í sóttkví og um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar o.fl. til að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki með lækkun starfshlutfalls.
 • Nauðsynlegt að fylgjast vel með áformum stjórnvalda og hafa yfirsýn yfir þær ívilnanir og aðgerðir sem geta hjálpað til við þessar óvenjulegu aðstæður

Lausafjárstýring og skipulagning

 • Á meðan faraldurinn geisar og í kjölfar hans eru miklar líkur á að lausafjárstaða verði fyrir neikvæðum áhrifum. Innflæði tekna getur minnkað og þurfa fyrirtæki að stýra vel útflæði lausafjár.
 • Dæmi um aðgerðir til að sporna við skertri lausafjárstöðu er t.d. nýting greiðslufrests á skattskilum, sækja um endurgreiðslu skatta eins fljótt og hægt er, staðreyna frádráttarbærar tapaðar kröfur í skattskilum og skoða hvort hægt sé að aðlaga reikningaútgáfu að breyttri stöðu í samræmi við lög og reglur.

Hafið í huga skattaleg sem og önnur álitamál tengd starfsmönnum

 • Fyrirtæki eru að velta fyrir sér eða jafnvel neyðast til að flytja starfsmenn milli ríkja. Starfsmenn geta því þurft að vinna frá öðrum ríkjum en upphaflega var áætlað til lengri eða skemmri tíma. Slíkt getur haft í för með sér skattaleg álitaefni að því er varðar viðkomandi einstakling sem og fyrirtækið sem hann starfar fyrir. Nauðsynlegt er því að greina hver skattaleg áhrifin eru eða munu vera.
 • Varðandi flutning á starfsmönnum milli ríkja að þá þarf að hafa í huga ýmis atriði t.d. varðandi dvalar- og atvinnuleyfi. Þessar reglur breytast mjög hratt og mikilvægt að hafa nýjustu upplýsingar til að geta metið áhrifin.
 • Hugsanlegt er að fyrirtæki muni innleiða hjá sér breytt starfshlutfall starfsmanna, óska eftir því að starfsmenn taki frí sín núna eða neyðast til að grípa til uppsagna. Slíkt hefur í för með sér umtalsvert lagalegt og skattalegt flækjustig sem þarf að huga vel að.
 • KPMG er með starfsemi í nánast öllum ríkjum heims þar sem til staðar eru sérfræðingar á hverju sviði fyrir sig og eru reiðubúnir að aðstoða. 

Nýting á tækni

 • Fyrir atvinnurekendur er lykilatriði að nýta tæknilausnir til að lágmarka röskun vegna faraldursins og fyrirmæla stjórnvalda vegna hans. Skoða þarf t.d. hvort starfsfólk í sóttkví geti eftir sem áður sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti heiman frá sér með fjarfundabúnaði og öðrum samskiptatækjum.
 • Þá þurfa fyrirtæki að vera meðvituð um ráðstafanir sem yfirvöld og aðrir aðilar grípa til í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar, t.d. með því að bjóða upp á rafrænan samskiptamáta í auknum mæli.

Fáið nýjustu upplýsingar um hvaða sértæku aðgerðir ríki heims hafa gripið til

Sértækar aðgerðir ríkja heims

Aðstoð í formi styrkja eða breyttra reglna gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum eru nauðsynleg í baráttunni en eru mismunandi eftir ríkjum heims.