Hinum nýju lögum fylgdu breytingar á tollalögum, nr. 88/2005 er fólu í sér að ekki skyldi innheimta tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma, til og með 31. desember 2021.

Þá skulu aðilar er njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum njóta þess að gjöldin skuli greiða fimmta dag annars mánaðar eftir lok hvers tveggja mánaða uppgjörstímabils. Í upphaflegu frumvarpi með lögunum var lagt til að gjöldunum skyldi dreift á tvo gjalddaga með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils en þessu breytt við meðferð þingsins. Með því móti var enn frekar komið til móts við innflytjendur vegna greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem eru tollafgreiddar frá mars 2020 og til ársloka. Gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir janúar og febrúar var 15. mars og mun breytingin því fyrst koma til vegna uppgjörstímabilsins mars og apríl. Gjalddagi þess tímabils verður því 5. júní næstkomandi í stað 15. maí eins og hefði verið fyrir breytingu. Með breytingunni var því innflytjendum veittur 20 daga aukinn frestur til að skila virðisaukaskatti í tolli (tollkrít) vegna innflutnings.

Segir enn frekar um þetta í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um þetta:

„Af breytingunni leiðir að gjalddagi virðisaukaskatts í tolli vegna innflutnings og gjalddagi virðisaukaskatts af viðskiptum innan lands vegna sama uppgjörstímabils mætast. Sé innskattur hærri en útskattur þannig að gjaldandi eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts verður unnt að skuldajafna henni á móti gjaldföllnum virðisaukaskatti í tolli vegna innflutnings. Þó skal það áréttað að breytingunni er ekki ætlað að breyta forgangsröðun skatta og gjalda, sbr. reglur nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.“

Varðar uppgjörstímabil og út árið 2020.