close
Share with your friends
Úttekt afurðastöðva

Virðiskeðja afurðastöðva í kindakjötsframleiðslu

Úttekt afurðastöðva

Ráðgjafarsvið KPMG hefur unnið skýrslu fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þar sem gerð er úttekt á afurðastöðvum í kindakjötsframleiðslu. Í skýrslunni er virðiskeðja afurðastöðvanna skoðuð „frá bónda í búð“ en hún tekur til flutnings fjár til afurðastöðvanna, slátrunar, vinnslu og dreifingar. Ekki er horft til framleiðslukostnaðar bænda né hvað gerist eftir að heild- og smásalar hafa tekið við afurðunum. 

Í úttektinni er gerð greining á ytri markaði (þróun í framleiðslu og sölu), erlendir markaðir kannaðir (þróun og horfur) og rekstur og efnahagur afurðastöðvanna skoðaður sérstaklega eftir því sem gögn leyfa. Einnig eru í skýrslunni raktar niðurstöður beinnar gagnaöflunar hjá afurðastöðvunum þar sem reynt er að komast að því hver raunverulegur framleiðslukostnaður þeirra er og hvernig hann skiptist.

Þegar horft er til ytri markaðar er ljóst að framleiðsluvirði og hlutfall kindakjöts í heildarframleiðslu hefur minnkað á síðustu árum. Ekki er reynt að grafast fyrir um ástæður en ljóst er að samkeppni við aðra innlenda framleiðslu sem og innflutning á kjöti hefur aukist. Jafnframt liggur fyrir að kindakjötsframleiðendur hafa ekki náð að nýta sér aukinn fjölda ferðamanna á Íslandi nema að litlu leyti. Framleiðsla kindakjöts hefur aukist talsvert umfram innlenda eftirspurn og verð á erlendum mörkuðum er undir framleiðsluverði.

Framleiðslukostnaður umfram verð á heimsmarkaði

Þó svo að útflutningur á íslensku kindakjöti hafi aukist stöðugt síðustu 10 ár er það aðeins 0,25% af heildarframboði á alþjóðamarkaði. Þar bera Ástralir og Ný-Sjálendingar höfuð og herðar yfir aðra framleiðendur með um 70% af markaðnum. Kindakjötsframleiðsla Breta og Íra er mjög háð útflutningi. Þar er rekstur erfiður þrátt fyrir að dregið hafi úr offramleiðslu og verð á kjöti þaðan er hærra en fyrir íslenskt kindakjöt. Horfur eru fyrir aukna eftirspurn eftir kindakjöti í Kína og annars staðar í Asíu sem og í Afríku sunnan Sahara. Einnig eru horfur fyrir að verð muni þokast uppá við á alþjóðamörkuðum þó svo langt sé í land með að það fari upp fyrir núverandi framleiðsluverð á Íslandi.

Rekstur afurðastöðva á Íslandi hefur verið erfiður síðustu ár og segja má að afkoman hafi verið léleg. Þetta hefur t.d. leitt af sér lægra afurðaverð til bænda. Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Skagfirðinga eru langstærstu framleiðendurnir á markaðnum og afkoma þeirra virðist betri en hinna smærri. Samanburður er þó ekki auðveldur því að framleiðsla SS og KS er mun fjölþættari en hinna félaganna.

Skv. upplýsingum frá afurðastöðvunum eru langstærstu kostnaðarliðirnir í virðiskeðjunni fólgnir í greiðslum til bænda og beinn kostnaður við slátrun, vinnslu og kælingu en annar kostnaður felst í flutningi fjár til afurðastöðva og afurða til heild- og smásala. Verð til bænda hefur lækkað á síðustu árum og óvíst hversu langt er hægt að ganga frekar í þeim málum á næstu árum. Lækkun kostnaðar er því ekki augljóst þó svo möguleikar til hagræðingar séu vissulega til staðar.

Kindakjötsframleiðsla hefur verið alltaf verið mikilvægur þáttur í íslenskum landbúnaði og atvinnulífi. Það er trú og von skýrsluhöfunda að skýrslan nýtist við stefnumótun í landbúnaði sem byggir á hlutlægum gögnum og upplýsingum.